Rýmingu aflétt á Seyðisfirði á fullu

Ákveðið hefur verið að aflétta að fullu rýmingu á húsum við Búðará á Seyðisfirði. Íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín mánudaginn 4. október fá því að snúa heim. Hættustigi hefur verið aflýst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum en eins og Austurfrétt greindi frá fyrr í dag hægði töluvert á framskriði jarðvegsfleka við ána síðasta sólarhringinn.

Þá hafa útreikningar sýnt að líklega verji varnargarðar og landslagið húsin. Þessu til viðbótar hafa sprungur opnast í flekanum og hann gliðnað. Það eykur líkur á að hann brotni upp og falli í nokkrum stykkjum, fari hann á annað borð af stað. Við því má búast í rigningartíð á næstunni.

Í gær var rýmingu aflétt af fjórum af þeim níu húsum sem rýmd voru fyrir rúmri viku. Í dag var aflétt rýmingu á hinum fimm. Búið er að tilkynna íbúum um þetta.

Mælt er með að umferð um göngustíga meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum verði áfram með aðgæslu. Hættustig almannavarna sem hefur verið í gildi færist nú á óvissustig.

Engar hreyfingar hafa mælst í hlíðum ofan Seyðisfjarðar utan þeirra er mælst hafa í hryggnum.

Fjöldahjálparstöð sem opin hefur verið í Herðubreið hefur nú verið lokað. Boðað er til íbúafundar í Herðubreið á fimmtudag klukkan 16. Þá er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.