Orkumálinn 2024

Sakar Icelandair um einokunartilburði

Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi eru ekki allir sáttir við nýja markaðsherferð Air Iceland Connect sem þeir segja hygla hótelum í eigu félagsins sem hafi einokunarstöðu á flugi til Egilsstaða. Félagið segir fleirum hafa verið boðið að taka þátt í verkefninu en ekki þegið boðið.

„Það er verið að gefa ferðaþjónustuaðilum á Austurlandi langt nef,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi 701 Hotels sem bæði rekur Hótel Valaskjálf og Hallormsstað auk matsölustaða á Egilsstöðum.

Air Iceland Connect, sem tilheyrir Icelandair samsteypunni, hefur í sumar verið með tilboðspakka undir slagorðinu „kynnumst upp á nýtt.“ Inni í tilboðinu er flug og gisting, auk afsláttar í afþreyingu á áfangastöðum flugfélagsins, Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum.

Á þremur áfangastaðanna eru í boði nokkrir gistimöguleikar en á Egilsstöðum aðeins Hótel Hérað, sem er í eigu Icelandair-hótela sem Icelandair samsteypan á 25% í. Þráinn segir að með þessu sé flugfélagið að nota einokunarstöðu sína á flugleiðinni Reykjavík – Egilsstaðir til að styrkja eigin hótelkeðju.

„Icelandair er einokunarfyrirtæki sem er nánast á ríkisjötunni. Það auglýsir ferðapakka innanlands og ef þú flýgur til Akureyrar eru bæði Hótel Siglufjörður og KEA inni í myndinni en þegar komið er austur fáum við ekki að vera með. Hví er það bara hér sem einkaaðilar eru ekki með?“ segir Þráinn og bætir við að ekki sé einsdæmi um að flugvélið beini viðskiptunum á hótel Icelandair.

„Við höfum ítrekað lent í þessu. Fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma hingað með árshátíðir en sett flugið fyrir sig því það er svo dýrt. Þegar þau hafa fengið tilboð í flug hafa þau spurt um hótel líka og þá hafa svörin verið þau að aðeins eitt sé í boði.“

Þráinn er ekki eini ferðaþjónustuaðilinn eystra sem gagnrýnir pakkatilboð Air Iceland Connect. Austurfrétt hefur rætt við fleiri ferðaþjónustuaðila sem gagnrýna að félagið hafi ætlast til að þeir legðu kaupendum pakkatilboðsins til 30-50% afslátt en framlag flugfélagsins væri að kynna staðina í sínu efni.

„Það er fullt af fyrirtækjum hér sem gætu verið með í þessu. Icelandair hringdi í okkur til að kanna hvort gestirnir fengju ekki afslátt á matsölustaðina okkar. Okkur fannst í lagi að spyrja til baka hvort hótelið okkar fengi ekki að vera með í pakkanum en það reyndist ekki í boði. Við förum ekki að veita þeirra viðskiptavinum afslátt ef ætlunin er bara að gista á Hótel Héraði,“ segir Þráinn.

Hann fullyrðir að margir ferðaþjónustuaðilar beri gremju sína í hljóði en fáir þori að orða hana opinberlega af ótta við að missa möguleg viðskipti í gegnum félagið.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar að fleirum hafi verið boðin þátttaka í tilboðspökkum Air Iceland Connect en þeir ekki þegið það.

„Þessir pakkar voru ekki settir upp þannig að einungis væri um Icelandair hótel að ræða. Í þessu verkefni erum við í samstarfi við tvö hótel á Akureyri, eitt á Ísafirði og nokkur í Reykjavík. Það er rétt að við erum einungis í samstarfi við eitt hótel á Egilsstöðum en það skal tekið fram að öðrum var boðin þátttaka sem ekki varð úr. Aðalmarkmiðið með þessu verkefni er að gera sem flestum kleift að nýta sér þennan ferðamáta og gista á góðum hótelum í nokkrar nætur í sumar á góðu verði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.