Sameiningarviðræður Djúpavogshrepps, Hornafjarðar og Skaftárhrepps slegnar af

Nefnd um mögulega sameiningu Djúpavogshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps hefur lokið störfum án þess að skila af sér formlegu áliti um mögulega sameiningu.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem nefndin sendi frá sér í dag.

Þar segir að viðræðurnar, sem hófst um mitt ár 2016, hafi verið lærdómsríkar og aukið skilning milli sveitarfélaganna á stjórnsýslu, stöðu og fyrirkomulagi ýmissa málaflokka innan þeirra.

Óvissuástand sem skapaðist með þingkosningum á tímabilinu hafi orðið til þess að ekki tókst að ljúka viðræðunum í tíma fyrir sveitarstjórnarkosningar sem verða í lok maí.

„Á það sérstaklega við um ýmis áhersluverkefni sem sveitarfélögin vildu koma á laggirnar með stuðningi stjórnvalda og nýtt fyrirkomulag um stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags.

Af þessum sökum varð það samhljóða ákvörðun nefndarinnar að ljúka störfum án þess að skila formlegu áliti um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.“

Í samtali við Austurfrétt/Austurgluggann í byrjun desember sagði Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogs, að það yrði nýrra sveitarstjórna að meta hvort halda ætti viðræðunum áfram. Í millitíðinni væri hægt að ræða þær við kjósendur í aðdraganda kosninga. Djúpavogshreppur er meðal þeirra sex sveitarfélaga sem ræða frekara samstarf og mögulega sameiningu að frumkvæði Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.