Samningur undirritaður um móttöku flóttafólks

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, undirrituðu í gær samning um móttöku fjögurra flóttafjölskyldna frá Írak. Samningurinn felur í sér verkskiptingu milli ríkis og sveitarfélags.

Alls er um að ræða nítján einstaklinga, þar af átta börn og tvö ungmenni um tvítugt. Fólkið kemur upphaflega frá Írak og mælir á arabísku en hefur verið í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Samkvæmt tölum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa um 750.000 flóttamenn komið á síðustu árum til Jórdaníu þar sem fyrir var fjöldi flóttafólks frá Palestínu. Miðað við höfðatölu eru næstflestir flóttamenn í heiminum staðsettir í Jórdaníu eða um 89 manns á hverja 1000 Jórdani.

Samningurinn sem undirritaður var í gær fjallar um móttöku, aðstoð og stuðning við fjölskyldurnar fjórar á næstu tveimur árum. Hann byggist á viðmiðunarreglum flóttamannanefndar þar sem staða flóttafólks og réttindi þess er skilgreind, fjallað um inntak aðstoðar við það fyrst eftir komuna og kostnaðarskiptinu milli ríkis og sveitarfélags.

Í grófum dráttum snúa verkefnin að því að tryggja fólki húsnæði, félagslega ráðgjöf, menntun og fræðslu, heilbrigðisþjónustu, aðstoð við atvinnuleit og fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Rauði krossinn Íslands kemur að móttöku fólksins þar sem hann útvegar fólkinu nauðsynlegt innbú á heimili þess og hefur umsjón með stuðningsfjölskyldum sem ætlað er að liðsinna flóttafólkinu við aðlögun að íslensku samfélagi.

Von er á fólkinu síðar í mánuðinum en undirbúningur að móttöku þess hefur staðið yfir um nokkurt skeið í í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNCHR) og fór sendinefnd til Jórdaníu í nóvember síðastliðnum, meðal annars til að veita fólkinu fræðslu um Ísland, íslenskt samfélag og réttindi og skyldur.

Ásmundur Einar sagði við undirritun samningsins í dag að hann væri þakklátur Fjarðabyggð fyrir vandaðan undirbúning að mikilvægu verkefni. „Það er mikið í húfi að vel sé tekið á móti þessu fólki sem svo margt hefur reynt og þolað, að það finni sig velkomið og fái sem bestan stuðning til að fóta sig í samfélaginu og öðlast gott líf hér á landi.“

Þetta er í annað sinn sem Fjarðabyggð tekur á móti flóttafólki en árið 1999 tók sveitarfélagið á móti hópi flóttafólks frá Kosovo.

Mynd: Velferðarráðuneytið


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.