Segir metafla útskýra mismun í ísprósentu

Framkvæmdastjóri Búlandstinds á Djúpavogi segir einstaklega góða veiðiferð útskýra mikinn mun í ísprósentu á afla fyrirtækisins milli þess hvort eftirlitsmenn frá Fiskistofu voru viðstaddir löndun eða ekki.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi var fjallað um brottkast á afla og löndum framhjá vigt.

Fiskvinnslur vigta aflann sjálfar og færa til bókar en reglulega eru eftirlitsmenn Fiskistofu viðstaddir vigtun. Viðmælendur þáttarins sögðu óvenjulágt hlutfall íss í þyngd undir eftirliti benda til þess að verið sé að fara á svig við lög.

Umfjöllunin í þættinum byggðist á yfirferð þáttastjórnenda á vigtunartölum yfir þriggja ára tímabil. Þar var einnig birt myndrit með mismun á íshlutfalli milli útgerða eftir því hvort eftirlitsmenn eru á staðnum eða ekki.

Munaði tíu prósentustigum með eftirliti

Áberandi mestur munur var á tveimur útgerðum, Búlandstindi á Djúpavogi og Hólmsteini Helgasyni á Raufarhöfn. Myndritið virðist stemma við tölur frá Fiskistofu fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins, en fiskvinnslur eru heimsóttar ársfjórðungslega.

Hjá Búlandstindi var íshlutfallið við eftirlit 4,31% en 14,83% að öðru leyti. Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds, segir eftirlitsmenn Fiskistofu hafa verið viðstadda óvenjustóra löndun sem skýri mismuninn.

„Þetta er það mesta sem báturinn hefur landað. Í þessari tilteknu löndun var báturinn (Sunnutindur) með metafla. Landað var í 25 körum og meðalvigtin í hverju þeirra var 544 kg sem olli því að ísprósentan varð mikið lægri.

Í lönduninni á undan var báturinn með rúmum þremur tonnum minni afla sem var landað í 22 körum. Meðalvigt afla í hverju kari var 474 kg.“

Munaði í hina áttina í haust

Samkvæmt gögnum frá Fiskistofu var eftirlitsaðili viðstaddur löndun hjá Búlandstindi þann 1. febrúar. Að landi komu 13 tonn og var það langstærsta veiðiferð Sunnutinds fyrstu þrjá mánuði ársins. Íshlutfallið var sömuleiðis aldrei lægra.

Síðan hefur hlutfallið snúist við. Þegar málin voru könnuð hjá Búlandstindi í sumar munaði þremur prósentustigum á meðaltali landana án eftirlits og löndun með eftirliti.

Tvær vikur eru síðan Fiskistofa sendi frá sér tölur um ísprósentu í afla fyrir september og október. Í þeim tölum er ísprósenta Búlandstinds mun lægri með eftirliti en án þess. Eftirlit var með löndun þann 24. október þar sem íshlutfallið var 12% en að meðaltali 4,72% í öðrum veiðiferðum.

Ísinn fyllir upp í karið

Ís er notaður til að kæla aflann þegar hann hefur verið veiddur. Fiskurinn er settur í kör um borð og þau síðan fyllt með ís. Elís segir mismikla fyllingu í körunum útskýra sveiflur í íshlutfallinu.

„Við vigtum aflann en ekki ísinn. Ísprósentan verður til eftir því hversu mikill afli er í karinu. Ef 600 lítra kar er fyllt með ísvatni vegur það um 600 kíló og ísprósentan verður því 100%. Ef 300 kg af afla er sett í karið fer rúmmál af ísvatni upp úr karinu og þá verður ísprósentan 50%.“

Fyrrum starfsmenn Fiskistofu sögðu í þættinum í gær að réttast væri að miðað við ákveðið íshlutfall. Elís segir ekki endilega æskilegt að hlutfallið farið niður í 4% eins og gerst hafi í eftirlitsferðinni í febrúar, þá sé þröngt um aflann. Að þessu sinni hafi verið mikill fiskur á línunni og hann hafi þurft að taka allan um borð.

Sannfærður um að unnið sé af heilindum

Elís hafði ekki séð þáttinn þegar Austurfrétt ræddi við hann en sagði mikla umræðu um hann á Djúpavogi þótt hún snéri ekki að Búlandstindi. „Það er ekki skemmtilegt að vera á svona lista. Ég var ekki viðstaddur löndunina sjálfur en er sannfærður um að hér sé reynt að vinna af heilindum.“

Í gögnum Fiskistofu eru einnig tölur frá löndunum úr Gullveri, skipi Síldarvinnslunnar, Sandfelli hjá Loðnuvinnslunni og Hafdísi frá Eskju.

Íshlutfallið hjá Hafdísi í byrjun árs var 2,9% lægra undir eftirliti en án þess og 2,66% hjá Sandfelli um mitt ár.

Gullver var hins vegar með hærra hlutfall undir eftirliti um mitt ár. Afli skipsins var aftur skoðaður í haust, þá var íshlutfall í þorski 1,2 prósentustigi lægra undir eftirliti en 1,03 stigum hærra í ufsa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.