Sérstakt að boðið sé í sérfræðilækna svo þeir komi út á land

Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði telja að endurskoða verði kerfið um þjónustu sérfræðilækna til að tryggja að þeir veiti einnig þjónustu á landsbyggðinni. Ekki dugi að auka peninga í heilbrigðismála ef kerfið sé gallað.

„Það er ekki nógu að setja bara meiri peninga í kerfið, það getur tekið endalaust við. Það verður að endurhugsa það svo þessi peningar seytli ekki bara eitthvað, svo sem til lækna sem ekki sjá ástæðu til að þjónusta fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Sigrún Blöndal, bæjarfulltrúi Héraðslistans á síðast fundi bæjarstjórnar.

Til umræðu var fjárveiting til Heilbrigðisstofnunar Austurlands fyrir næsta ár. Fé til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni er ekki aukið frá fjárlögum sem lögð voru fram fyrr í haust þótt fé til heilbrigðismála almennt sé aukið.

Stjórnendur HSA hafa lýst þeirri skoðun sinni að um 100 milljónir vanti til reksturs stofnunarinnar, þar af 30 til að borga sérfræðilæknum þótt stofnunin borgi þeim lægsta taxtann af öllum heilbrigðisstofnunum. Það hefur meðal annars leitt til þess að ekki hefur verið hægt að fá sérfræðinga austur.

„Það er sérstakt í kerfinu sem við erum með í þessu litla landi að það sé nánast boðið í sérfræðilækna til að þeir komi í verktöku út á land,“ sagði Sigrún og bætti við að í núverandi ástandi fælist hvorki öryggi né samfella.

Stjórnendur HSA hafa áður gagnrýnt fyrirkomulag sérfræðiþjónustu og landlæknir hefur meðal annars varpað fram þeirri hugmyndi að sérfræðingar verði skikkaðir til að nýta hluta þeirra eininga sem þeim er úthlutað á landsbyggðinni.

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins, þakkaði upplýsingarnar frá HSA og sagði grafalvarlegt að HSA væri svona háð verktöku sérfræðinga. Vandinn yrði ekki leystur með einum fjárlögum heldur endurskipulagningu á þjónustunni eins og hún leggi sig. Sveitarfélögin geti lagst á árár með heilbrigðisstofnunum að koma málunum á dagskrá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.