Sértæki byggðakvótinn fyrsta raunhæfa leiðin til að koma aflaheimilum aftur í byggðarlagið

Útgerðarmaður á Breiðdalsvík segir sértækan byggðakvóta sem úthlutað er í byggðarlagið í gegnum Byggðastofnun skipta miklu máli fyrir staðinn. Nýr bátur hefur verið keyptur til að veiða kvóta sem úthlutað var í haust.

„Ég tel Breiðdalsvík eiga fullt erindi til þess að fá úthlutað úr þessum potti Byggðastofnunar. Byggðarlagið á mikið undir sjávarútvegi og rétt fyrir síðustu aldamót var hér um 1.500 tonna kvóti sem hvarf frá Breiðdalsvík árið 1999.

Mér fannst þetta fyrsta raunhæfa leiðin sem ég hafði séð eftir að ég lauk námi til þess að komast inn í sjávarútveginn og fá til baka aflaheimildir í byggðarlagið. Sértæki kvótinn er líka mjög mikilvægur til þess að koma hreyfingu á hlutina á Breiðdalsvík,“ segir Elís Pétur Elísson, útgerðarmaður á Breiðdalsvík í samtali við nýjasta tölublað Fiskifrétta.

Til Breiðdalsvíkur fara á yfirstrandandi fiskveiðiári 400 tonn af sértækum byggðakvóta. Ísfiskur opnaði vinnslu þar í byrjun árs 2015 og nýtti byggðakvóta í samstarfi við Elís. Starfsmönnum var sagt upp í sumar og gaf fyrirtækið upp óvissu og sveiflur í kostnaði.

Elís sótti um sértæka kvótann nú og fékk. Hann hefur því bætt við sig bát sem ber heitið Áki í Brekku, áður Darra EA, eftir afa Elís Péturs í móðurætt. Aðili að samningnum er Pétur Viðarsson sem gerir út Guðmund Þór SU frá Breiðdalsvík.

Elís Pétur er uppalinn á Breiðdalsvík. Eftir grunnskóla fór hann í Vélskóla Íslands og varð vélfræðingur. Hann starfaði sem vélstjóri á íslenskum fiskiskipum áður en hann flutti erlendis og vann sem vélstjóri á stórum einkasnekkjum.

Fjögur ár eru síðan hann snéri aftur í heimahagana. Hann stofnaði fyrst strandveiðiútgerð með mági sínum auk þess sem hann hefur komið að fleiri fyrirtækjum, löndunarþjónustu, brugghúsinu Beljanda og kaffihúsinu Kaupfjelaginu.

Það keypti hann um mitt ár og er að innrétta gistiheimili á neðri hæð hússins. Það fer vel saman við útgerðina.

„Hugmyndin er sú að nýta húsið betur. Við erum líka í erfiðri aðstöðu að auka fjölda aðkomubáta hérna sem við þurfum að gera vegna löndunarþjónustunnar og til að auka innkomu á höfnina því mikill skortur er á húsnæði á vorin og sumrin. Við þurfum að geta tryggt sjómönnum trygga gistingu og þess vegna fórum við út í þessar framkvæmdir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.