Sex mánaða fangelsi fyrir hnífsstungu

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir að stinga annan með hníf. Refsingin er ákveðin með hliðsjón af brotasögu þess dæmda.

Atvikið átti sér stað um miðjan nóvember í fyrra en fram kemur í dóminum að maðurinn hafi stungið annan í svefnherbergi á heimili þess síðarnefnda með hníf í fótlegg við hné þannig að af hlaust sex sentímetra langur skurður.

Maðurinn játaði brot sitt skýlaust og sýndi iðrun að mati dómsins. Hann samþykkti einnig bótaskyldu en mótmælti bótakröfu upp á 1,7 milljón króna. Taldi dómari 400.000 krónur hæfilegar bætur auk 200.000 króna fyrir aðstoð lögmanns.

Þá þarf maðurinn að greiða rúmar 700 þúsund krónur í annan málskostnað, þar af skipuðum verjanda sínum 550 þúsund.

Fangelsisrefsingin er ákveðin með hliðsjón af brotaferli mannsins. Í maí 2016 hlaut hann annan sex mánaða fangelsisdóm, þá fyrir rán, líkamsárás og fíkniefnalagabrot á árunum 2014 og 15. Fram kemur að hann hafi ítrekað gerst brotlegur við lög, meðal annars gegn vopnalögum og umferðarlögum á liðnum árum. Þá voru hnífur og hamar í eigum mannsins gerðir upptækir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.