Sífellt erfiðra að fá lækna út á land
Nýr læknir kom til starfa á Seyðisfirði um miðja síðustu viku en illa gengur að manna stöður heimilislækna innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) líkt og víða annars staðar á landsbyggðinni. Framkvæmdastjóri lækninga segir skipta máli að stofnunin geti tekið á móti læknakandídötum.Þetta var meðal þess sem kom fram á íbúafundi á Seyðisfirði í síðustu viku þar sem stjórnendur HSA sátu fyrir svörum um þjónustu stofnunarinnar á staðnum.
Síðustu mánuði hefur legið fyrir að Rúnar S. Reynisson, læknir Seyðfirðinga til fjölda ára, væri á förum úr byggðarlaginu. Fyrir skemmstu var síðan gengið frá ráðningu Þorsteins Bergmanns í hans stað og tók hann til starfa um miðja síðustu viku.
Læknisþjónusta á Seyðisfirði hefur hins vegar tekið miklum breytingum síðustu ár og ekki er langt síðan tveir fastráðnir læknar voru þar. Aðalbækistöð Þorsteins verður á Seyðisfirði en hann mun einnig hlaupa undir bagga á Egilsstöðum. Staðan þar þyngdist verulega eftir að eini fastráðni sérfræðingurinn í heimilislækninum fór í langt veikindafrí.
Í máli Péturs Heimissonar, framkvæmdastjóra lækninga hjá HSA, kom fram að ef ekki væri til staðar sérfræðingur í heimilislækningum á Egilsstöðum missti stöðin réttindi til að taka á móti læknanemum, en þeir hafi gegnt lykilhlutverki í að tryggja afleysingar á stöðinni. „Við missum mikið ef við missum kennsluna,“ sagði Pétur.
Aðspurður um viðveru læknis á Seyðisfirði, sem tilheyrir nú orðið Fljótsdalshéraði sem vaktsvæði á sumrin, svaraði Pétur að í einmenningsumdæmum þar sem læknar séu nánast á vakt allan sólarhringinn safni þeir á móti upp miklum frítökurétti. Þegar læknir á Seyðisfirði taki út fríið sitt taki læknar á Egilsstöðum að sér vaktir á Seyðisfirði.
Pétur sagði að viðmið heilbrigðisyfirvalda væri að einn heimilislæknir sé á hverja 1200 íbúa. Samkvæmt þessu ættu 11 sérfræðingar að vera í heimilislækningum á svæði HSA en þeir séu 2,4 fastráðnir. Þar af sé einn kominn í veikindaleyfi, Pétur sjálfur er í 30% stöðugildi og einn sem kominn er yfir sjötugt er í 10-20% stöðu. Þá er ótalinn sá heimilislæknir sem nýfluttur er til Seyðisfjarðar.
Ekki framleiddir svona læknar lengur
Pétur benti á að víðar væri erfitt að manna læknastöður en á Austfjörðum. „Að hafa uppi stofuframboðið hefur reynst okkur erfiðra ár frá ári, hvort sem það er á Egilsstöðum eða í Fjarðabyggð.
Ágætur maður sagði um daginn að það væru ekki framleiddir svona læknar lengur sem velji sér að starfa úti á landi. Ekki er nóg með að eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu virðist vera að aukast heldur virðist framboð á læknum líka vera að minnka.“
Pétur sagði þetta skapa þrýstingu á að innan heilbrigðisþjónustunnar væru fundnar aðrar lausnir en vísa alltaf beint á lækna. HSA hafi til dæmis reynt að færa aukna ábyrgð á hjúkrunarfræðing og sjúkraþjálfara.
„Við erum eina heilsugæslan á landinu með sjúkraþjálfara í fremstu línu, sem þýðir að þeir sem leita til okkar með stoðkerfisvanda fara beint til sjúkraþjálfara sem er sérfræðingar á því svið og vita mun meira um það en læknarnir.“
Pétur sagði líka að bættar samgöngur yrðu til að efla heilbrigðisþjónustu á Austurlandi mikið. „Ef við fáum tiltekin göt í gegnum fjöll þá væri jafnvel ekkert mál að gera Austurland að einu vaktsvæði. Það skiptir ekki máli hvert tengingin liggur, þess vegna hef ég ekki beitt mér fyrir tilteknum göngum, en það er mikið heilbrigðis- og öryggismál að fá þau.“
Vonast til að nýir samningar skili sérfræðingum oftar út á land
Stjórnendur HSA voru einnig spurðir út í þjónustu sérfræðinga á Austurlandi, meðal annars geðlækna. Bæði Pétur og Guðjón Hauksson, forstjóri, gagnrýndu það fyrirkomulag sem verið hefur á uppbyggingu sérfræðiþjónustu hérlendis.
„Maður sér að nýting sérfræðilækna vex eftir því sem nær dregur höfuðborgarsvæðinu. Á það höfum við ítrekað bent. Sérgreinalæknar teljast ekki til grunnþjónustu sem okkur er ætlað að sinna og fáum peninga í,“ sagði Guðjón.
„Það hefur verið sátt um það, óháð því hvaða ríkisstjórn er við völd, að sérfræðiþjónustan byggist upp í Reykjavík. Samningar við sérgreinalæknar eru lausir nú um áramótin og við vitum ekki hvað kemur út úr endurskoðun samninga en vonandi er hægt að semja um þetta (staðsetningu þjónustunnar).“
Frá íbúafundinum í síðustu viku. Mynd: Seyðisfjarðarkaupstaður