Sigmundur Davíð: Illa hugsaðar lausnir sópa til sín fylgi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir miðjuflokka eins og Framsóknarflokkinn eiga erfitt uppdráttar í heimi stjórnmála þar sem þeir sem hefðu mestar yfirlýsingarnar fengju mest fylgi en minna væri kannað hver innistaðan væri.


Þetta sagði Sigmundur Davíð á opnum fundi Framsóknarflokksins á Egilsstöðum nýverið þar sem spurt var út í fylgi Pírata sem mælast langstærstir íslenska stjórnmálaflokka um þessar mundir.

Sigmundur sagði áþekka hluti vera að gerast víðar í heiminum þar sem flokkar í andstöðu við kerfið nytu mikillar hylli.

„Við sjáum það bæði í Bandaríkjunum og Evrópu að það koma menn utan af jaðrinum með einfaldar, jafnvel lítt hugsaðar lausnir, sem sópa til sín fylgi. Hugmyndir þeirra eru í andstöðu við kerfið og því óljósari sem þær eru því betra,“ sagið Sigmundur.

Fylgið fer á jaðrana

Þar vísaði hann til manna eins og Donald Trump og Bernie Sanders, sem sækjast eftir að verða forsetaefni í Bandaríkjunum, þjóðernisflokka í Norður-Evrópu, anarkista og kommúnista í sunnanverðri álfunni og Jeremy Corbyn sem var kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins í andstöðu við þingflokkinn.

„Það er erfið aðstaða fyrir miðjuflokk þegar menn fara frá miðjunni út á jaðrana, frá skynsemishyggjunni í óúthugsaðar lausnir.“

Höskuldur Þórhallsson, annar þingmaður flokksins, talaði sérstaklega um stöðu Sannra Finna sem komust í ríkisstjórn eftir síðustu kosningar í Finnlandi. „Við þessa flokka hefur verið sagt: „Þið komust til valda, gjörið svo vel,“ en þeir hafa ekki staðið við stóru orðin. Ég held að vart nokkur flokkur hafi hrunið jafn gríðarlega í fylgi og Sannir Finnar.“

Sannir Finna fengu 17,7% í finnsku þingkosningunum fyrir tæpu ári. Fylgishrun þeirra hófst í haust og mælast þeir með 9% fylgi nýjustu könnunum. Til samanburðar má nefna að Framsóknarflokkurinn fékk 24,4% í þingkosningum 2013 en var sléttu ári síðar komið niður í 12% þar sem það hefur haldist síðar.

Hlíft við að ræða stefnuna

Sigmundur Davíð notaði tækifærið til að gagnrýna hugmyndir Pírata um borgaralaun. „Það er athyglisvert þegar flokkunum er hlíft við að ræða hvað felist í hugmyndum þeirra, eins og sjávarútvegsstefnu eða borgaralaunum,“ sagði Sigmundur.

Hann sagði borgaralaunin, miðað við 300.000 krónum á hvern Íslending, kosta tvöfaldar árstekjur ríkissjóðs. „Þá er eftir að fjármagna allt annað.“

Sigmundur viðurkenndi einnig að fylgishrunið hefði hægt á stefnumálum Framsóknarflokksins. „Ef við værum með 35% í könnunum værum við í mun betri stöðu til að koma þeim í gegn,“ svaraði hann þegar hann var spurður hvort til greina kæmi að fara með málefni eins og nýtt húsnæðiskerfi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hann reyndi þó að telja kjark í flokksmenn fyrir kosningar næsta vor. „Við megum vera enn duglegri við að útskýra og sýna að það sem við erum að gera virki. Svo vonum við það besta þegar kemur að kosningum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.