Sigrún Blöndal hættir í sveitastjórnarmálum

Sigrún Blöndal, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og oddviti Héraðslistans í bæjarstjórn Fljótsdalshérað, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í sveitastjórnarkosningunum í vor. Hún segir tíma til kominn að snúa sér að nýjum verkefnum.

„Já, ég ætla hætta. Það eru önnur verkefni framundan sem ég þarf að sinna og tel að það sé líka í lagi að sinna fólkinu mínu. Það er dálítið síðan ég tók þessa ákvörðun,“ segir Sigrún í samtali við Austurfrétt.

Sigrún kom inn í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs árið 2010 og sat tvö ár í sæti flakkara í stjórn SSA það kjörtímabil. Eftir kosningarnar 2014 varð hún formaður sambandsins auk þess að gegna starfi forseta bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs á móts við Önnu Alexandersdóttur frá Sjálfstæðisflokknum í samstarfi við Á-listann.

Sigrún segist telja rétt að láta staðar numið í vor. „Það er óþarfi að sitja of lengi en á sama skapi er óþarfi að það verði of mikil skipti. Það þarf að finna þennan gullna meðalveg.“

Í nýlegri könnun kom fram að 40% sveitastjórnarfólks ætli að hætta eftir kosningarnar í lok maí. 30% til viðbótar hafi ekki gert upp hug sinn.

„Meðan umhverfið er þannig að menn eru í þessu nánast sem áhugamáli er óhjákvæmilegt að endurnýjunin sé mikil. Fólk þarf rosalegan áhuga og góðar aðstæður til að halda lengi út. Ég hef áhugann en tel að ég geti beint kröftum mínum annað.“

Hún segir framboðsmál Héraðslistans verða skoðuð í upphafi nýs árs. Auk Sigrúnar á Árni Kristinsson sæti í bæjarstjórninni fyrir hönd listans.

„Framboðsmálin hafa aðeins verið rædd en fóru í biðstöðu framyfir þingkosningarnar. Við köllum til funda eftir áramótin og könnum hvort ekki sé áhugasamt fólk til að taka við þessu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.