Síldarvinnslan hættir við kaupin á Ice Fresh Seafood
Stjórn Síldarvinnslunnar hefur samþykkt að kaup félagsins á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood gangi til baka. Síldarvinnslan segir Samkeppniseftirlitið hafa gengið of langt í könnun sinni á kaupunum á sama tíma og hún þurfi að einbeita sér að bolfiskhluta félagsins vegna jarðhræringanna í Grindavík.Þetta kemur fram í tilkynningu Síldarvinnslunnar frá því seint i gærkvöldi. Í fyrrahaust var gengið frá samkomulagi milli Síldarvinnslunnar og Samherja um að Síldarvinnslan keypti helmingshlut í Ice Fresh Seaood.
Ice Fresh Seafood hefur verið sölufélag Samherja erlendis. Um leið átti það að eignast önnur sölufélög Samherja erlendis. Í tilkynningunni segir að Samherji hafi óskað eftir að fallið yrði frá kaupunum.
Kaupin voru samþykkt með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Það ákvað í lok febrúar að í kjölfar kaupanna væri rétt að ráðast í umfangsmeiri rannsókn á því hvort tengsl Síldarvinnslunnar og Samherja væru slík að líta ætti á þau sem sama fyrirtækið. Samherji er stærsti einstaki hluthafinn í Síldarvinnslunni með 30% auk þess sem þau hafa í gegnum tíðina átt í ýmsu samstarfi í veiðum og vinnslu.
Í tilkynningu Síldarvinnslunnar er Samkeppniseftirlitið ásakað um að hafa farið offari við athugun málsins og gagnabeiðnir þess séu í engu samræmi við umfang viðskiptanna, sérstaklega því aðeins séu um að ræða sölu á erlendum mörkuðum. Þess vegna líti út fyrir að gagnaöflunin sé farin að snúast um annað og meira en umrædd viðskipti.
Síldarvinnslan kveðst hafa afhent Samkeppniseftirlitinu öll þau gögn sem óskað hafi verið eftir og hún búi yfir. Mikill vilji hafi verið til að klára viðskiptin, enda aðdragandinn langur og augljós ávinningur fyrir sjávarútveg.
Þar eru ítrekuð fyrri orð um að á heimsvísu séu fyrirtæki í bæði kaupum og sölu á fiski að verða færri en stærri. Þess vegna þurfi íslensk fyrirtæki að feta sömu braut til að viðhalda samkeppnishæfni sinni, því landið sé smátt í alþjóðlegum samanburði. Þess vegna þurfi íslenskur sjávarútvegur að styrkja sín alþjóðlegu sölufyrirtæki til að geta keppt við risana í afhendingaröryggi, verðum og gæðum.
Síldarvinnslan segir ákvörðunina tekna með hagsmuni félagsins í huga, ekki síst mikilla verkefna í kringum dótturfélagsins Vísis í Grindavík. Þörf sé að beina athygli og orku að brýnni verkefnum í bolfiskhluta starfseminnar. Þegar því sé lokið veðri aftur hægt að skoða sölu- og markaðsmálin.