Sjaldséður gestur á Héraði

Í blíðviðrinu á Héraði á fimmtudag varð vart við afar sjaldséðan gest. Um var að ræða fiðrildi af tegundinni kólibrísvarmi sem aðeins hefur sést hérlendis í örfá skipti og aldrei áður á Austurlandi svo vitað sé.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram þekkt séu sex tilvik þar sem sést hafi til kólibrísvarma hérlendis fyrr og aðeins eitt fiðrildanna var talið líklegt til að hafa borist af sjálfsdáðum. Það fannst á Fagurhólsmýri í Öræfum 13. september 1955. Áður var eitt tilvik skráð á Akureyri 1949 sem annars er lítið vitað um en öll önnur tilvik má með vissu rekja til innflutnings. Það heyrir því til nokkurra tíðinda að sést hafi til fiðrildisins á Egilsstöðum nú, en hin austlæga staðsetning gæti rennt stoðum undir að það hafi borist hingað af sjálfsdáðum.

Kólibrísvarmi er með minni tegundum svarma. Hann er að mestu grábrúnn á lit, á framvængjum eru tvær svartar bylgjulínur sem afmarka ívið ljósari bekk á miðjum vængjum. Afturvængir eru hins vegar að miklu leyti rauðgulir. Afturbolur er sérstakur, tiltölulega breiður og flatur. Á hliðunum aftan til eru langar hvítar og svartar hreisturflögur og svartar á afturendanum, en þær mynda nokkurs konar stél. Kviður afturbolsins hvelfist upp innan við stélið.

Náttúruleg heimkynni kólibrísvarma eru í Suður-Evrópu og Norður-Afríku, austur um Arabíuskaga, Íran og syðsta hluta Rússlands, og alveg austur um Asíu til Kína og Japans. Á sumrin flakka fiðrildin norður eftir Evrópu allt norður til suðurhluta Svíþjóðar og Finnlands og til Færeyja. Í Asíu flakkar kólibrísvarmi suður til Indlands á veturna. Hann hefur einnig náð yfir til Alaska.


„Frekar ógeðslegt kvikindi“

Það var Jóna Mekkín Jónsdóttir sem varð, ásamt öðrum, vör við gestinn í blómakeri við heimili fjölskyldunnar og náðu nokkrir af honum myndum og myndböndum. Fiðrildið staldraði við í góða stund og töluvert af fólki kom að til að skoða og mynda gripinn, sem flaug svo á endanum upp í loft og hvarf sjónum. „Þetta var nú frekar ógeðslegt kvikindi með risastór augu, en samt gaman að fylgjast með því og nógu athyglisvert til að maður var ekkert hræddur við það,“ sagði Jóna Mekkín um gestinn. Það voru sérfræðingar frá Náttúrustofu Austurlands sem greindu tegundina út frá myndum en gripu í tómt þegar komið var á staðinn til að kanna hvort fiðrildið væri enn á svæðinu. Það er þó ekki talið útilokað að það láti sjá sig aftur.

Nokkuð hefur verið um að tiltölulega sjaldgæf fiðrildi hafi sést á Austurlandi í sumar. Að sögn Náttúrustofu Austurlands fannst fiðrildi af tegundinni möðrusvarmi í Berufirði fyrir nokkrum vikum, en það er álíka sjaldséður gestur og kólibrísvarminn. Þá hefur sést nokkuð bæði af þistilfiðrildum og aðmírálsfiðrildum á Austurlandi í sumar.


Kólibrísvarmi að næra sig á Egilsstöðum. Mynd: Helga Jósepsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.