„Sjómaður á sumrin og bakpokaferðalangur á veturna“

„Ég hef ekki farið í neitt útkall ennþá, sem betur fer, og vonandi verður það bara þannig áfram,“ segir Steinunn Káradóttir, sem gekk nýverið til liðs við slökkviliðið á Borgarfirði eystri og er hún þar með fyrsta konan sem starfar sem slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Austurlands.


„Sko, í fyrsta lagi er ég ekki kona, heldur fyrsta stelpan í slökkviliðinu,“ segir Steinunn og hlær, þegar hún er spurð að því hvernig hún haldi að standi á því að konur hafi alfarið vantað í slökkviliðin eystra. „En það er stór spurning og ég bara veit hreinlega ekki hvers vegna stelpur og konur eru lítið í slökkviliðsstarfi, verðum við ekki bara að breyta því?“

Steinunn er ein fjögurra nýliða sem gengu til liðs við slökkviliðið á Borgarfirði síðastliðið haust. „Ja, þetta var nú bara þannig að við vorum nokkur spurð hvort við vildum ganga í slökkviliðið en eiginlega áður en ég vissi af eða náði að gefa nokkurt svar vorum við öll boðuð á fund og farin að máta galla og hjálma og allar græjur. Þar með var ég gengin í slökkvilið,“ segir Steinunn.

Ekkert útkall enn sem komið er
Nýliðar í slökkviliði gangast undir fornám áður en þeir geta hafið störf sem slökkviliðsmenn.

„Við höfum verið að taka krossapróf á netinu upp úr verst uppsettu bók sem ég hef lesið og svo er lokapróf einhvern tíma í sumar. Ég er kannski ekki búin að vera alveg nógu dugleg að taka prófin en það hlýtur að koma. Við fórum svo í þrekpróf sem allir reykkafarar þurfa að standast. Sennilega er gerð meiri krafa um það í svona stærri slökkviliðum þar sem menn vinna alfarið við þetta, að menn æfi eitthvað og séu í alveg dúndurformi, ég held að það sé engin skylda hjá okkur en auðvitað plús samt.“

Hvernig líkar henni starfið það sem af er? „Það er nú kannski erfitt að segja, það er ekki komin mikil reynsla á þetta, ég er bara búin að mæta á nokkrar æfingar, en þetta er bara spennandi og gaman að prófa. Ég er nú ekki viss um að ég eigi mikla framtíð sem slökkviliðsmaður, ekki sem aðalstarf allavega, þetta er auðvitað lítið slökkvilið hérna á Borgarfirði en mikilvægt að það sé til staðar ef eitthvað kemur upp á."

Pabbi rekur mig á hverju hausti
Steinunn hefur verið á sjó með föður sínum síðan 2001. „Ég vinn með pabba mínum, hann er skipstjórinn. Hann rær á línu stærstan hluta ársins en fer svo yfirleitt á grásleppu á vorin. Ég ræ með honum á línu á sumrin og svo fór ég á mína fyrstu grásleppuvertíð síðasta vor og er að fara aftur núna í mars. Pabbi rekur mig svo á hverju hausti, það var auðvitað þannig að ég var í skóla á veturna svo ég fékk bara sumarvinnu hjá honum, og svo höfum við bara haldið því fyrirkomulagi eftir að ég hætti í skóla. Þann tíma sem ég er ekki að vinna reyni ég að nýta í að ferðast og skoða heiminn eins mikið og ég get. Svo ég er í rauninni sjómaður á sumrin og bakpokaferðalangur á veturna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.