Skiptar skoðanir um niðurrif Gömlu rafstöðvarinnar
Vopnafjarðarhreppur hefur lagt fram skipulagslýsingu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Vopnafirði. Samkvæmt því verður húsið að Hafnarbyggð 16, betur þekkt sem Gamla rafstöðin, rifið. Skiptar skoðanir eru um gjörninginn.Frumkvæðið að málinu kemur frá Brimi hf. sem rekur fiskimjölsverksmiðju og frystihús á Vopnafirði. Í bréfi frá stjórnendum Brims til sveitarfélagsins frá í apríl er óskað eftir að fá að rífa rafstöðina því það hefti aðgang að inngangi bæði starfsmanna og að mjölskemmu sem sé í litlu húsasundi bakvið stöðina.
Þar segir að metnaður sé að hafa snyrtilegt í kringum starfsstöðvar fyrirtækisins. Inngangur í þær og næsta umhverfi sé andlit félagsins út á við og verðskuldi sérstaka athygli.
Þá er í skipulagslýsingunni bent er á að mjölflutningarnir fari fram á vörubílum. Þótt eftir fremsta megni sé reynt að skilja að gönguleið starfsmanna frá svæði vinnuvéla geti þarna skapast hætta fyrir starfsfólk á leið til og frá vinnu.
Brim er ekki eigandi rafstöðvarinnar í dag, heldur félög í eigu smábátasjómanna á Vopnafirði sem nota það sem geymslu. Samkomulag liggur fyrir um kaup Brims á húsinu, háð því að heimild fáist til að rífa það. Í erindi núverandi eigenda til hreppsnefndar kemur fram að Gamla rafstöðin þarfnist orðið verulegs viðhalds, bæði múrverk og þak, auk þess sem enginn hiti er á húsinu þar sem það var talið óþarft meðal dísilvélar rafstöðvar bæjarins voru í notkun.
Annað tveggja húsa Sigvalda í bænum
En sagan er ekki svo einföld að um sé að ræða gamalt hús komið að hruni sem einfaldast sé að fjarlægja. Húsið stendur í miðju hafnarsvæðisins á Vopnafirði og þegar núverandi deiliskipulag fyrir svæðið var gert var húsið fært undir hverfisvernd. Það var að undangenginni húsakönnun þar sem varðveislugildi hússins var metið hátt.
Húsið var reist árið 1960 fyrir RARIK til að hýsa dísilrafstöð bæjarins en hætt var að nota það undir varaaflstöð árið 2007. Það er teiknað af einum helsta arkitekt þjóðarinnar, Sigvalda Thordarsyni, sem ólst upp í Vopnafirði og er aðeins annað af tveimur húsum eftir hann sem enn standa í bænum.
Í húsakönnuninni segir að um sé að ræða einstakt rafstöðvarhús, teiknað af Sigvalda með dæmigerðum höfundareinkennum hans, sem standi við eina af aðalgötum bæjarins á áberandi sögu og varðveiti bæði byggingarsögu sem tengist sveitarfélaginu og sögu atvinnulífsins. Af því er varðveislugildið talið hátt þótt ástand þess þyki bágborið og búið sé að bæta við þakkanti sem ekki fallið að upprunalegu hönnuninni.
Með skipulagsbreytingunni er verið að aflétta hverfisverndinni þannig að rífa megi húsið og um það hefur verið deilt á öllum stigum nefnda og ráða Vopnafjarðarhrepps.
Ósammála sveitarstjórn
Í bókun meirihluta Framsóknarflokks og Betra Sigtúns er því fagnað að Brim hafi „metnað fyrir snyrtilegu umhverfi í kringum starfsstöðvar félagsins.“ Í skipulagslýsingunni segir að húsið sé farið að stinga í stúf á hafnarsvæðinu þar sem búið sé að gera upp önnur hús.
Minnihluti Samfylkingarinnar hefur á móti lagst gegn niðurrifinu með vísan í það sem fram kemur í húsakönnuninni. Í bókun minnihlutans í hreppsráði við umræður um málið í apríl segir að saga Vopnafjarðar í húsaverndun sé „mjög dapurleg.“ Mörg sögufræg hús hafi verið rifin og því sé það ósk minnihlutans að ekki verði gerð „enn ein mistökin með niðurrif eldri húsa sem hafi mikið verndargildi í sveitarfélaginu.“ Fulltrúi listans í skipulags- og umhverfisnefnd hafði áður bókað að nær væri að færa húsið í upprunalegt horf.
Meirihluti hreppsráð samþykkti að halda ferlinu áfram á fundi í byrjun júlí. Skipulagslýsingin liggur nú fyrir til kynningar og haldi málið áfram verður breytingin formlega auglýst um mánaðarmótin september/október. Þá tekur við sex vikna frestur til athugasemda áður en skipulagið tekur gildi.
Meðal þeirra sem veita umsögn lögum samkvæmt er Minjastofnun Íslands, sem veitti umsögn um húsakönnunina á sínum tíma. Samkvæmt svari frá Minjastofnun hefur athygli hennar verið vakin á málinu. Umsögn um skipulagslýsinguna verði veitt á næstunni.
Mynd: Logi Höskuldsson/@lojiho