Skoða 350 MW vindorkugarð í Fljótsdalshreppi
Orkugarðar Austurlands hafa hug á að byggja um 350 MW vindorkugarð í Fljótsdalshreppi. Garðurinn myndi breiða úr sér á um 50 ferkílómetra svæði. Orkuna á að nýta til framleiðslu rafeldsneytis á Reyðarfirði. Viljayfirlýsing liggur einnig um kaup á orku úr mögulegri Hamarsvirkjun í Hamarsdal, sunnan Djúpavogs.Þetta kom fram á íbúafundi sem haldinn var á vegum Orkugarðanna og Fljótsdalshrepps í félagsheimilinu Végarði í gær. Fyrir hönd Orkugarðanna voru mættir fulltrúar frá Copenhagen Infrastructure Partners (CIP).
CIP var stofnað árið 2012 af fyrrum stjórnendum danska ríkisorkufyrirtækisins, Örsted. CIP hefur sérhæft sig í fjárfestingum í endurnýjanlegum orkugjöfum, mest vindi og síðar sól en nú rafeldsneyti, eins og ætlunin er að vinna á Reyðarfirði. Fyrirtækið er í raun sjóðsstýringarfyrirtæki og helstu fjárfestar að baki því lífeyrissjóðir og stofnanafjárfestar. Fyrirtæki höndlar í dag með um tvær billjónir íslenskra króna í grænum orkuskiptum.
Framleiðsla á ammóníaki
Orkugarðurinn hefur fengið úthlutað lóð við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Hann er í grunninn rafeldsneytisverksmiðja. Það er gert þannig að annars vegar er nitur hreinsað úr andrúmslofti, hins vegar vatn klofið í vetni og súrefni. Vetnið og andrúmsloftið eru síðan sameinuð til að framleiða ammoníak. Við þetta fellur til heitt vatn og súrefni, sem hugur er að nýta í aðra starfsemi bæði nálægt garðinum en mögulega víðar á Austurlandi, til dæmis áburðarverksmiðju.
Ammoníak er ekki notað sem eldsneyti í dag en það verður hægt á næstu árum. Er það einkum hugsað til að knýja stærri og þyngri farartæki, svo sem skip. Í því er ekki kolefni og því myndast ekki koltvísýringur. Er það því hluti þeirra orkugjafa sem komið geta í stað olíu.
Það flokkast sem rafeldsneyti því það verður til með rafmagni. Töluvert þarf af því og þess vegna er horft upp í Fljótsdal. „Aðstæður eru hagstæðar hér,“ sagði Magnús Bjarnason, ráðgjafi CIP, sem unnið hefur með fyrirtækinu undanfarna 18 mánuði. Hann og Anna-Lena Jeppsson, fjárfestingastjóri, töluðu fyrir hönd fyrirtækisins.
50 ferkílómetra vindmyllugarður
Lagt er upp með að vindmyllugarðurinn í Fljótsdal geti framleitt 350 MW af rafmagni. Miðað er við vindmyllur með 120 metra háan turn og 78 langra spaða, alls 198 metrar í hæstu stöðu. Til samanburðar má nefna að Hengifoss er 128 metrar. Hver vindmylla framleiðir um 6,6 MW. Því er reiknað með 50 vindmyllum. Hver þeirra þarf svæði upp á einn ferkílómetra. Garðurinn myndi því þekja 50 ferkílómetra eða 5000 hektara. Heildarflatarmál Fljótsdalshrepps er 1.517 ferkílómetrar, en til samanburðar má nefna að Garðabær er 46 ferkílómetrar og Vestmannaeyjar 16.
Aðspurður á fundinum svaraði Magnús að ekki væri fastmótað hvort garðurinn yrði allur á einum stað, eða skipt niður í nokkra minni. Hagstæðara væri að hafa hann í einu lagi. Bæði þá, sem oftar á fundinum ítrekaði hann að ekki lægi fyrir hversu mikla orku þyrfti til starfseminnar á Reyðarfirði og því gæti stærð vindorkugarðsins breyst.
„Við höfum teiknað upp þetta 350 MW dæmi og okkur finnst það áhugavert. Þetta er allt hluti af þróun sem tekur tíma. Við komum til ykkar snemma í þróunarferlinu til að eiga samtalið. Við vitum að vindmyllunum fylgir sjónmengun og rask, þess vegna erum við að kynna verkefnið.
Við vildum frekar nálgast ykkur sem hóp heldur en ræða við einstaka landeigendur. Við teljum mikilvægt að þetta sé unnið í sátt. Framhaldið er ykkar. Ef ekki er áhugi til að skoða þetta þá er það ykkar réttur,“ sagði Magnús.
Vindur, línur og land
Magnús sagði ekkert liggja fyrir um einstök landsvæði innan hreppsins. Nokkrir þættir ráða því þó að horft er til Fljótsdals fyrir orkuöflun, frekar en til dæmis Reyðarfjarðar sjálfs. „Aðstæður eru hagstæðar hér. Hér eru mikil landgæði og nægt landsvæði. Sérfræðingar hafa skoðað vindatlasa og meðal annars byggt á þeim gögnum koma menn frekar hingað en leita tækifæranna í öðru.
Þetta byggir þó á skoðunum sem gerðar hafa verið úr fjarlægð, frekar en staðarþekkingu. Þess vegna leitum við til ykkar.
Nálægð við línur skiptir líka máli. Það er alltaf fjárfesting í að tengja vindmyllugarða við flutningslínur. Við höfum unnið með Landsneti undanfarna mánuði og vitum að raflínurnar frá Fljótsdalsstöð til Reyðarfjarðar gætu tekið þessa orku,“ sagði Magnús.
Auglýsa eftir viljugum landeigendum
Fyrirtækið hyggst á næstu mánuðum kanna áhuga landeigenda í Fljótsdal á að láta land undir vindmyllugarða. Á fundinum í gær tóku bæði til máls bændur sem sögðust hafa mikinn áhuga á samningum en líka aðrir sem lýstu algjörri andstöðu. Í kynningunni kom fram að í maí yrði leitað að landeigendum og fundað með þeim í júní.
Þegar samþykki þeirra liggur fyrir er hægt að ráðast í frekari rannsóknir fyrir staðarval. Setja þarf upp mastur til að mæla vindinn, líklega 1-2. Þau eru háð skipulagsleyfi sveitarstjórnar. Einnig er hægt að mæla mynd með stafrænum búnaði sem sendir frá sér geisla.
Samkvæmt tímalínu CIP er vænst að þróun garðsins taki 3-5 ár. Á þeim tíma yrði unnið að rannsóknum á vindum og umhverfisáhrifum, framkvæmdin færi í fullt umhverfismat og sótt yrði umleyfi. Framkvæmdatíminn er áætlaður 1-2 ár.
Leiguverð ræðst af tekjunum
Garðurinn yrði síðan 25-50 ár í rekstri. Miðað er við að samningar við landeigendur annars vegar, hins vegar kaupendur orku yrðu til 25 ára. Fram kom að greiðslur til landeigenda yrðu hluti af tekjum Orkugarðsins en tækju einnig mið af almennu verðmæti lands sem undir vindmyllurnar færi. „Samningar um leigu fyrir landi hafa gjarnan farið eftir fyrri nýtingu. Eftir því sem ræktunin er verðmætari því meira er greitt. Eins höfum við horft til þess að vera samkeppnishæf við önnur vindorkuver í viðkomandi landi,“ sagði Anna-Lene.
Magnús sagði ljóst að tekjur yrðu miklar af framleiðslunni þar sem samið væri til trausta aðila til langs tíma. „Við metum horfurnar á hvað fæst fyrir afurðina góðar. Við höfum skoðað fýsileika verkefnisins í 18 mánuði og metum það sterkt.“ Út frá opinberum gögnum slógu fundargestir á að tekjur af hverri vindmyllu næmu 70-80 milljónum á ári. Tekjur garðsins væru þá 3,5-4 milljarðar á ári.
Lögmenn, sem til máls tóku á fundinum, sögðu ólíklegt að hægt væri að taka land eignanámi undir vindmyllurnar, ekki séu slíkir almannahagsmunir í húfi. Verð yrði því til í frjálsum samningum milli landeigenda og Orkugarða Austurlands. Reynslan sýndi þó að verðmætið yrði vart hátt í eignanámi. Lögmaður CIP sagði ekki vilja til að fara í eignanám eða valta yfir neinn.
Vantar lög um opinber gjöld
Í kynningunni var bent á að lagaumhverfi vantaði nánast með öllu um vindmyllur hérlendis. Magnús sagði þó að fyrir kosningarnar í haust hefðu þingframboðin talað um vilja sinn til að stuðla að orkuskiptum auk þess sem forsvarsfólk ríkisstjórnar hefði gefið það í skyn að lagaumgjörð yrði mótuð á kjörtímabilinu.
Þetta þýðir þó að allsendis óvíst hvaða opinberu gjöld yrðu greidd af vindmyllugarðinum. Undanþága í skattalögum í dag fyrir rafveitur þýðir til dæmis að ekki færi hægt að innheimta fasteignaskatta af vindmyllunum. Fulltrúar CIP sögðu að það væri hlutverk stjórnamálafólks að móta reglur um opinber gjöld, hvort sem það væru fasteignaskattar eða auðlindagjöld. Verkefnið yrði þó að vera arðsamt að lokum. Þá er enn ekki útséð um hvernig vindmyllugarðurinn komst inn í rammaáætlun um vernd og nýtingu orkusvæða.
Hávaði og húsdýr
Í kynningunni var tekið fram að umhverfisáhrif framkvæmdanna ættu að vera fullu afturkræf. Þau yrðu hins vegar nokkur, meðal annars þyrfti að leggja veg að hverri myllu. Aðspurðir um áhrif á dýralíf sögðu þeir engin þekkt áhrif á húsdýr eða dýr á landi, hins vegar þurfi að huga að fuglum. Þeir fljúgi yfirleitt ákveðnar leiðir en þær séu þekktar og hægt að hafa vindmyllurnar utan þeirra.
Varðandi hávaða þá mælist hann 105 desíbel, eins og í garðsláttuvél upp við myllurnar. Í 300-500 metra hæð er hljóðið komið niður í um 40 db, sem er lágmarksstyrkur frá atvinnustarfsemi nærri íbúabyggð, eða á við ísskáp að sögn fulltrúa CIP.
Skoða verkefni víðar um heim
Í kynningunni kom fram að 16-22 starfsmenn þarf til að sinna viðhaldi og daglegum rekstri vindmyllugarðsins. Æskilegt sé að þeir búi í nágrenninu en Magnús kvaðst ekki geta svarað því hvort Orkugarðurinn kæmi að uppbyggingu húsnæðis á svæðinu. Hann og Anna-Lene töluðu um að markmið Orkugarðsins væri að gera Austurland að miðstöð orkuskipta á Íslandi og stuðla að þekkingar- og atvinnusköpun sem tengist grænni orkunýtingu.
Aðspurður svaraði Magnús að CIP væri ekki að skoða aðra möguleika á starfsemi hérlendis en væri hins vegar í viðræðum um svipuð verkefni á 6-7 stöðum í heiminum, meðal annars Danmörku, Noregi og Spáni. „Þessi samtöl eiga sér stað á fleiri stöðum vegna þess skýra vilja sem er til að fara í orkuskipti.“
Vatnsorka
En á fundinum kom líka fram að Orkugarðarnir væru að skoða fleiri raforkukosti. Félagið hefur einnig undirritað viljayfirlýsingu við Arctic Hydro vegna Hamarsvirkjunar. Arctic Hydro hefur frá árið 2016 haft leyfi til að rannsaka virkjun í Hamarsá upp af Hamarsdal sem gæti framleitt allt að 60 MW af afli. Sú viljayfirlýsing er háð leyfum fyrir virkjuninni. Magnús sagði vatns- og vindorku eiga góða samleið.
Þá var á fundinum einnig spurt út í vatnsöflun Orkugarðanna. Anna-Lena svaraði að þau mál væru rædd við Fjarðabyggð. Verksmiðjan þyrfti ferskvatn, ef nota ætti sjó þyrfti að ná úr honum saltinu.