Skoska leiðin í gildi 1. september
Íbúum ákveðinna svæða á landsbyggðinni mun í haust bjóðast niðurgreiðsla á flugferðum til og frá Reykjavík. Stefnt er að því að útfærslan verði prufukeyrð í ár og komi til fullrar framkvæmdar á því næsta.Niðurgreiðslan, sem kallast gjarnan skoska leiðin þangað sem fyrirmynd hennar er sótt, var staðfest í samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti í byrjun síðustu viku.
Hún hefur hins vegar legið fyrir í nokkurn tíma og fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og flugfélaganna unnið að nánari útfærslu og tæknilegum lausnum.
Markmið leiðarinnar er að jafna aðstöðumun íbúa sem búa úti á landi að grunn- og sérfræðiþjónustu sem að mestu er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Hún er því ætluð landssvæðum eru annað hvort það fjarri höfuðborgarsvæðinu eða vegasamband með þeim hætti að erfitt eða mjög tímafrekt er að keyra til höfuðborgarsvæðisins.
Rétt á niðurgreiðslunni eiga íbúar á viðkomandi svæðum sem þurfa að greiða fyrir ferðir sem farnar eru í einkaerindum. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er verið að ganga frá nánari útfærslu, til dæmis hvar mörkin verða dregin í fjarlægðum. Líklegt sé þó að miðað verði við mörk sem þegar eru til staðar, svo sem póstnúmer.
Miðað er við tiltekinn fjölda ferða á mann á ári og ákveðinn hámarkskostnað á ferð eða að ríkið greiði 40% miðaverðs.
Stefnt er að því að skoska leiðin komi til framkvæmda þann 1. september fái hver og einn eina ferð, fram og til baka í ár. Þær verði síðan þrjár á ári frá næstu áramótum.