Skúli Óskarsson tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ

Skúli Óskarsson, kraftlyftingamaður frá Fáskrúðsfirði, var í gærkvöldi tekinn inn í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Skúli er annar Austfirðingurinn sem útnefndur er í heiðurshöllina.

Skúli ólst upp á Fáskrúðsfirði og þrátt fyrir að hann byggi lengst af í Reykjavík meðan afreksferli hans stóð í áttunda áratugnum hélt hann tryggð við heimahagana og keppti undir merkjum Leiknis og UÍA. 

Skúli setti heimsmet í réttstöðulyftu í Laugardalshöll árið 1980 þegar hann lyfti 315,5 kílóum í 75 kg flokki. Hann varð þar með fyrstur íslenskra íþróttamanna til að setja heimsmet.

Skúli var útnefndur í Heiðurshöllina þegar kjöri Íþróttamanns ársins var lýst í gærkvöldi. Skúli hlaut þá nafnbót tvisvar, árin 1978 og 1980.

Hann beitti fyrir sig kímnigáfunni þegar hann þakkaði fyrir sig. „Það hlaut að vera, ég er með vitlaus gleraugu. Næst þegar þið fáið ykkur gleraugu, fáið ykkur bara ein,“ sagði hann þegar hann skipti um gleraugu snemma í ræðunni.

„Lyftingar hafa ekki alltaf verið hátt skrifaðar, því við áttum að vera að steindrepa okkur á þessu brölti, en ég er sprelllifandi. Það er gaman að sjá allt þetta íþróttafólk springa út í sínum greinum en lyftingar eru í dag undirstaða nánast allra íþrótta.

Lyftingarnar hafa gefið mér ótal margt gott, ástríðu og gleði sem ég er þakklátur fyrir. Hvatningu frá fólkinu, sjálfsaga og keppnisskapið sem ekki var lítið þannig ég náði árangri og setti þessi fjölmörgu met. Ég veit að þetta er grobb en þetta er staðreynd.

Þetta kostaði oft svita og tár en var ánægjunnar virði. Svo kom annað líf, fjölskyldulífið sem tók hug minn og hjarta yfir,“ sagði Skúli sem komst við í lok ræðunnar.

„Þegar var hringt í mig og mér tilkynnt að ég væri tekinn inn í Heiðurshöllina spurði ég hvort það ætti að fara að láta mig gráta. Hann sagði mér að geyma það þar til í hófinu. Ég reyni að gera það ekki, ég græt svo illa og ljótt.“

Skúli er nítjándi einstaklingurinn sem tekinn er inn í Heiðurshöllina og annar Austfirðingurinn en Vilhjálmur Einarsson var tekinn inn í hana þegar fyrst var útnefnt í hana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.