Skúr fauk í frumeindir á Seyðisfirði
Almennt hefur verið rólegt hjá viðbragðsaðilum á Austurlandi síðan í gærkvöldi, þrátt fyrir mikið hvassviðri í fjórðungnum. Aðstoð þurfti þó að veita vegna ferðalanga í vandræðum á Seyðisfirði og foktjóns. Horfur eru ekki góðar fyrir snjómokstur á Möðrudalsöræfum.Kallað var út í nótt á Seyðisfirði vegna foktjóns. Þar fauk skúr „í frumeindir,“ miðað við lýsingar eiganda úr dagbók lögreglu. Gerðar voru ráðstafanir þannig að brakið úr honum ylli ekki frekara tjóni. Eins fauk rúða úr húsi og festa þak á öðru. Björgunarsveitin Ársól var kölluð til aðstoðar bílum á Fagradal.
Á Fjarðarheiði fóru þrír bílar framhjá lokunarpósti og lentu í vandræðum seint í gærkvöldi. Einn þeirra var sýnilegur á vefmyndavél við Mjósund í morgun. Heiðin var annars opnuð í morgun og leitast verður að halda henni opinni í dag. Þar er hált.
Í fyrramálið er von á Norrænu til hafnar með þó nokkurn fjölda gesta. Reynt verður að gera þá enn frekari ráðstafanir til að tryggja öryggi á heiðinni, enda þeir bílar væntanlega allir á sumardekkjum.
Staðan er verri á Möðrudalsöræfum. Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar um klukkan tíu að þar væri vitlaust veður og aukin úrkoma. Þess vegna séu takmarkaðar vonir um að hægt verði að opna en fylgst verður með náið með stöðunni. Vatnsskarð er opið. Þar virðist veðurstöð hafa frosið föst og því lítið að marka upplýsingar frá henni.
Bálhvasst í kringum Djúpavog
Lokað hefur verið milli Hafnar og Djúpavogs síðan á sunnudagskvöld. Þar eru vegir auðir en mikið hvassviðri. Nokkur fjöldi hafði safnast við lokunarpóstinn á Djúpavogi í gærkvöldi en allt fólkið sem í bílunum var komst í gistingu.
Mesti vindur á láglendi á landinu, það sem af er degi, mældist í Papey, 29 m/s. Í Hamarsfirði lægði um stund snemma í morgun en hvessti aftur upp úr klukkan 9 og hefur meðalvindhraði þar síðan verið um 24 m/s, samkvæmt veðurstöð Vegagerðarinnar. Þar mældist 50 m/s hviða um klukkan tvö í nótt.
Almannavarnir, Vegagerð og Veðurstofa funda um stöðuna klukkan 11. Þar verður meðal annars horft til þess hvort hægt sé að létta á þeim þrýstingi sem er orðinn að koma fólki og vörum milli landsfjórðunga.
Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Austurland og Austfirði vegna norðvestan hvassviðris til klukkan fimm í fyrramálið. Þá tekur við gul viðvörun sem gildir fram eftir morgni.
Mynd úr Fljótsdal frá í gærmorgun. Þá var víða hvítt niður á láglendi á Austurlandi en snjólínan var töluvert hærri í morgun.