Smitrakningu að ljúka eftir smit
Smitrakningu er að ljúka vegna Covid-19 smits sem greindist á Austurlandi í gær. Níu eru í sóttkví sem stendur.Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi sendi frá sér seinni partinn í dag.
Ekki er gefið upp að svo stöddu hvar í fjórðungnum smitið er staðsett. Viðkomandi var í sóttkví þegar smitið greindist.
Níu einstaklingar eru í sóttkví en í tilkynningu er tekið fram að mögulega fjölgi þeim þegar smitrakningunni verði lokið, en hún er samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands að mestu lokið.
Covid-19 smit greindist síðast á Austurlandi 9. apríl og frá 27. apríl hefur enginn verið í einangrun vegna smits.