Snjóflóð tók lyftuskúr í Oddsskarði

Töf verður á að hægt verði að opna byrjendabrekkuna á skíðasvæðinu í Oddsskarði eftir að snjóflóð hreif með sér lyftuskúrinn þar um helgina.


„Það slitnar úr efra klettabeltinu af löngu svæði en flóðið er ekki þykkt. Ofan við lyftuhúsið er smá hjalli og fram af honum fer mjó buna sem lendir beint á húsinu,“ segir Ómar Skarphéðinsson, rekstraraðili.

Ágætis snjór var kominn í brekkuna og nánast tilbúið til opnunar. Ljóst er hins vegar að henni seinkar því stjórnbúnaður lyftunnar var í húsinu.

Lyftuhúsið stóð skammt frá gangamunna Oddsskarðsganganna gömlu, vinstra megin þegar komið var frá Eskifirði. Flóðið fór inn í gegnum vegg á húsinu og ýtti því tugi metra. Ómar segir að þegar færi gefst til verði farið til að leita að búnaðinum úr húsinu.

Hann vonast til að hann sé ekki stórkostlega skemmdur þótt tryggt sé að vírar hafi slitnað. Síðan þarf að koma upp húsi til bráðabrigða.

Það kann að hljóma kaldhæðnislega og á svipuðum tíma og flóðið féll, í óveðri á fimmtudag og föstudag, var send út frétt á RÚV um að annað hvort þyrfti að flytja byrjendalyftuna eða ráðast í framkvæmdir upp á 200 milljónir króna til að verja hana þar sem hluti hennar sé á snjóflóðahættusvæði samkvæmt mati frá 2011. Skipulagsvinna vegna þess er eftir.

Ómar segir þekkt að flóð geti fallið á svæðinu og að húsið hafi verið laskað eftir eitt slíkt fyrir nokkrum árum. Hann þó ekki miklar áhyggjur af öryggi skíðafólks.

„Þetta er þörf áminning um að farið verði í alvöru aðgerðir. Það hefur legið fyrir að í þær þyrfti að ráðast frá 2011.

Það hafa fallið smá flóð áður en ég held að það sé bara vitað um eitt sem farið hefur fram af neðri hjallanum. Þessi flóð hafa fallið í vondum veðrum, ekki við aðstæður þar sem er opið, þótt það sé ekki hægt að treysta á það.“

Stefnt er á að opna aðallyftuna í Oddsskarði á annan í jólum.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.