Spannakerfið styttir námstímann

Átján jólastúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum á Egilsstöðum síðastliðinn sunnudag. Arnar Sigbjörnsson, áfangastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum, segir að með tilkomu spannakerfisins sem tók við af hinu hefðbundna annakerfi hafi það færst í aukana að nemendur útskrifist á þremur og hálfu ári og því séu jólaútskriftir að stækka.



Sjö nemendur útskrifuðust af náttúrufræðibraut, átta af félagsfræðibraut tveir af málabraut og einn af listnámsbraut.

Sigurlaug Björnsdóttir var dúx skólans að þessu sinni, en hún útskrifaðist af málabraut með heildareinkunina 9,32. Sigurlaug lauk átján tungumálaáföngum og var með 9,4 í meðaleinkun í þeim. Einnig var hún verðlaunuð fyrir góðan árangur í íslensku og sögu.

Tinna Hrönn Guðmundsdóttir og Eiríkur Ingi Elísson voru verðlaunuð fyrir góðan árangur í raungreinum, en Tinna Hrönn hlaut einnig verðlaun fyrir góða mætingu, en hún var með 10 í skólasókn allar spannir.

Fjórir nemendur voru verðlaunaðir fyrir félagsstörf, þau Guðgeir Einarsson, Eiríkur Ingi Elísson, Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir og Ásgerður Hlín Þrastardóttir.

Ásgerður Hlín hélt ræðu fyrir hönd stúdenta og þær Sigurlaug Björnsdóttir og Júlía Kristey H Jónsdóttir sungu við athöfnina.


Fjölbreytt lokaverkefni nemenda til sýnis

„Hingað til hefur jólaútskriftin verið fámennari, látlausari og ekki kannski með alveg eins miklum hátíðabrag og brautskráning að vori. Með tilkomu nýrrar námskrár er auðveldara fyrir þá nemendur sem koma vel undirbúnir úr grunnskóla að útskrifast á þremur og hálfu ári, eða jafnvel þremur. Þetta veldur því að brautskráningar um jól eru að verða fjölmennari og því sambærilegar þeim að vori,“ segir Arnar.

Athöfnin var í Egilsstaðakirkju og að henni lokinni var að vanda veisla í boði skólans þar sem fjölbreytt lokaverkefni nemenda til sýnis. „Allir nemendur sem útskrifast sem stúdentar ljúka ákveðnum lokaverkefnum, en þau eru afar fjölbreytt – til dæmis handverk, video-verkefni, leikverk, bækur og fleira.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.