Spennandi tímar framundan hjá Hallormsstaðaskóla
Björn Halldórsson er nýr stjórnarformaður Hallormsstaðaskóla, áður Hússtjórnarskólans á Hallormsstað. Hann segir spennandi tíma framundan í starfi skólans þar sem námsskrá hefur verið breytt með sjálfbærni að leiðarljósi. Björn er bóndi og fyrrum formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda.„Mér líst mjög vel á þær breytingar sem eru framundan og þær nýju leiðir sem ætlunin er að feta í skólastarfinu,“ segir Björn í samtali við Austurfrétt.
Fram kemur í máli Björns að í skólinn muni leggja mikla áherslu á sjálfbærni hvað varðar svið eins og til dæmis textílgerð og matargerð. „Það er mikil þörf á því að efla sjálfbærni meðal fólks í samfélaginu og reyna að ná tökum á því neysluæði sem geysar bæði hérlendis og um heim allan,“ segir Björn. „Við stefnum því á að vera í takt við tíðarandann.“
Skólinn er á hásksólastigi hvað námið varðar en breyting í þá átt hófst árið 2017. Fyrrgreindar breytingar eru skref í þeirri þróun. Fjöldi nemenda mun takmarkast við tæplega 20 manns á komandi vetri.
Björn bendir á að skólinn eigi að baki 90 ára gæfusama sögu í hússtjórnarnámi. „Ég er oft spurður að því hvort við séum ekki enn að kenna fólki að strauja,“ segir Björn. „Ég segi nú bara að margir mættu læra það að munda straujárn.“