Stafrófið stjórnar hvaða daga nemendur mæta í skólann
Nemendur með nöfn sem byrja á A-J munu mæta í Menntaskólann á Egilsstöðum næstkomandi mánudag. Þeir sem aftar eru í stafrófinu koma hins vegar á þriðjudag. Aðeins nýnemar voru viðstaddir þegar skólinn var settur í morgun. Þeir hafa skólann út af fyrir sig þessa vikuna.Á milli 80-90 manns voru viðstaddir þegar ME var settur í 42. sinn í morgun. Vanalega eru þeir um 200. Stólum í hátíðasal skólans hafði verið raðað upp með eins metra millibili.
Öðrum nemendum bauðst að fylgjast með skólasetningunni í gegnum fjarfundabúnað. Margir þeirra nýttu sér það. Ekki mundu þó allir eftir að slökkva á eigin hljóðnemum þannig að umhverfishljóð frá þeim ómuðu reglulega um salinn í morgun við kátínu viðstaddra.
A-J á mánudag
Sóttvarnareglur setja mikinn svip á skólastarf framhaldsskóla, þótt reglur þar séu rýmri en annars staðar því aðeins er krafist eins metra fjarlægðar milli einstaklinga í stað tveggja metra annars staðar. „Það er borið traust til skólanna með að færa viðmiðið niður í einn metra,“ sagði Árni Ólason, skólameistari, í setningarræðu sinni.
Skólarnir þurfa eins og aðrar stofnanir að hlíta fjöldatakmörkunum sem miðast við 100 manns að hámarki í rými. Um 200 manns eru skráðir í dagskóla í ME nú á haustönn, þar af um 60 nýnemar. Árni benti á það í morgun að fjöldatakmarkanirnar hefðu veruleg áhrif á stærri framhaldsskóla en ME slyppi tiltölulega vel í samanburði.
Þeim verður þó skipt upp í hópa. Fyrstu þrjá skóladagana verða aðeins nýnemar í skólanum. Á mánudag tekur síðan við kerfi þar sem nemendum verður skipt í tvo hópa, eftir stafrófsröð sem fyrr segir, sem mæta annan hvern dag í skólann. „Það þekkja allir stafrófið,“ sagði Árni. Þá daga sem nemendur mæta ekki í skólann verða þeir í fjarnámi.
Heimavistarnemum ráðlagt að koma með spritt
Aðeins nemendur á starfsnámsbraut og framhaldsskólabraut 1 mæta alla daga í skólann. Tæplega 50 nemendur eru skráðir á heimavist, heldur færri en oft áður, en þeir mæta eins og aðrir annan hvern dag. Annars stunda þeir fjarnám frá herbergjum sínum.
Íbúar á heimavist eru ábyrgir fyrir sóttvörnum á herbergjum. Í bréfi sem þeir fengu sent í aðdraganda skólasetningar var þeim ráðlagt að koma með eigin brúsa af handspritti. Þá þurfa nemendur að hreinsa borð í kennslustofum bæði í upphafi og lok kennslustundar.
Heildin ekki betri í sóttvörnum en sá slakasti
Nokkrir nemendur og kennarar báru andlitsgrímur við setninguna í morgun. Árni fór yfir grímunotkun, sem ekki er skylda, en kennurum er ráðlagt að vera með þær þegar þeir aðstoða nemendur í návígi. Skólinn hefur grímur til sölu fyrir nemendur ef þeir þurfa.
„Þetta venst en kemur ekki í staðinn fyrir fjarlægðina. Allt sem fær ykkur til að líða betur er gott og við tökum tillit til vina okkar. Við erum ekki í betri í sóttvörnum en sá lélegasti. Við minnum hvert annað á en ekki með látum,“ sagði Árni. Hann hvatti nemendur til að mæta ekki í skóla finndu þeir fyrir kvefeinkennum og bætti við að bæði nemendum og kennurum yrði sýndur skilningur við slíkar aðstæður.
Betur undirbúin en í vor
Árni sagði öruggt að þessar ráðstafanir stæðu út næstu viku en núgildandi sóttvarnareglur ná til 27. ágúst. Hann kvaðst vonast til að eftir þann tíma yrðu reglurnar rýmkaðar en bætti við að brugðið gæti til beggja vona. Ef fjöldatakmörkin verða færð niður í 50 manns mæta aðeins þeir í skólann sem mesta þörf teljast hafa fyrir það en lokað verður ef mörkin verða dregin við 20 manns.
Slík var raunin í vor. Árni sagði skólann undirbúinn nú en þá þegar takmörkunum var komið á með tiltölulega skömmum fyrirvara. Fjarnámið hefði gengið vel í vor og sumum nemendum jafnvel vegnað betur við þær aðstæður.
Til viðbótar við dagskólanemendurnir eru um 200 nemendur skráðir í fjarnám en lokað verður fyrir skráningu um það í lok vikunnar. Þeim hefur fjölgað ört síðustu daga. Verið er að skipta um þak á heimavistarálmunni en stefnt er að því að því ljúki innan skamms.
Til stóð að kennsla hæfist í Verkmenntaskóla Austurlands á morgun en í síðustu viku var ákveðið að fresta upphafi skólaárs til að skipuleggja skólastarf í samræmi við sóttvarnareglur. Kennsla á að hefjast á þriðjudag. Í frétt á vef skólans kemur fram að reynt verði að kenna á staðnum eftir sem kostur er en líklegast verðu um blöndu af fjar- og staðnámi að ræða í einhverjum bóklegum áföngum. Nýnemadagur verður á mánudag. Í Hallormsstaðaskóla hefst kennsla á mánudag.