Stefnir í mesta samdrátt í sjávarútvegi frá hruni
Það stefnir í mesta samdrátt í sjávarútvegi hérlendis frá árinu 2009. Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)
Þar segir m.a. að þrátt fyrir talsverða lækkun á gengi krónunnar í ár, sem vissulega styður við afkomu greinarinnar í krónum talið, dragast útflutningstekjur sjávarútvegs saman á milli ára. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, en íslenskum krónum, eða sem nemur tæpum 11%. Á þann kvarða er um að ræða mesta samdrátt í útflutningstekjum sjávarútvegs á milli ára, þ.e. á tímabilinu frá áramótum til júlí, frá árinu 2009 þ.e. í fjármálakreppunni.
„Mikil lækkun á verði sjávarafurða var meginástæða samdráttarins á árinu 2009, en í ár er það útflutt magn. Þá varð nokkuð snarpur viðsnúningur á verði sjávarafurða á árinu, úr ágætis hækkun í lækkun á milli ára á skömmum tíma.“ segir í fréttabréfinu
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 146 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra var það rúmlega 151 milljarður króna og er því um ríflega 3% samdrátt að ræða á milli ára í krónum talið.
Loðnubrestur og COVID
"Loðnubrestur og COVID-19 eru stærstu áhrifaþættirnir í ofangreindum samdrætti. Vissulega er þetta annað árið í röð sem loðnubrestur verður, og hefði því mátt ætla að áhrif hans væru engin í ár. Hins vegar var útflutningsverðmæti loðnuafurða tæpir 7 milljarðar króna á fyrstu sjö mánuðunum í fyrra, sem var birgðasala á framleiðslu fyrri ára. Sú sala verður augljóslega ekki endurtekin.," segir í fréttabréfinu
Síðan segir að áhrif COVID-19 koma svo bersýnilega fram í tölum apríl og maí. Ástandið á mörkuðum batnaði svo í byrjun sumars þegar veiran virtist vera á undanhaldi og mörg ríki fóru að slaka á sóttvarnaraðgerðum og fyrirtæki opnuð á nýjan leik.
„Ljóst er nú að sú bjartsýni sem gætti í byrjun sumars var skammgóður vermir enda fór útbreiðsla veirunnar víðast hvar að færast í aukana þegar á leið. Það kann að hafa sett strik í reikninginn fyrir útflutning á sjávarafurðum í júlí, því samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar varð verulegur samdráttur á milli ára í mánuðinum,“ segir í fréttabréfinu.
Mynd: Síldarvinnslan