Stigar og pallar við Stuðlagil brátt tilbúnir
Búið er að koma upp stálstigum og útsýnispöllum niður að Stuðlagili við bæinn Grund á Efri Jökuldal. Lítilsháttar frágangsvinna er eftir en bíður hún þess að verktakinn komi úr sumarfríi. Reiknað er með að endanlega ljúki framkvæmdum í næsta mánuði.Stefanía Katrín Karlsdóttir einn af eigendum Grundar segir að þessar framkvæmdir mun stórbæta öryggi þeirra sem vilja fara niður í og skoða gilið.
„Það eru raunar mjög fáir ferðamenn hér í dag,“ segir Stefanía Katrín. „Og það eru allt erlendir ferðamenn. Þeir íslensku hættu að koma hingað eftir fyrstu vikuna í ágúst.“
Mórauð á í augnablikinu
Eins og greint var frá hér á Austurfrett í morgun byrjaði vatn að renna um yfirfall Hálslóns á laugardag og niður farveg Jökulsár á Dal.
Stefanía Katrín segir að áin í gilinu sé því mórauð í augnablikinu og engir ferðamenn séu að fara niður í gilið. „Þegar fólk sér mórauða jökulsá í staðinn fyrir blátæra bergvatnsá hefur það engan áhuga á að fara niður í gilið,“ segir Stefanía Katrín. „Það er skiljanlegt því liturinn á ánni hefur áhrif á það hvernig fólk upplifir gilið.“