Stjórn veiða á sæbjúgum í klessu
Sjávarútvegsráðherra segir nauðsynlegt að herða reglur um veiðar á sæbjúgum. Stór hluti þeirra er veiddur út fyrir Austfjörðum. Skipstjóri segir þar hafa verið stundaðar ólympískar veiðar í haust.„Menn eru að berjast inni í þessu hólfi að ná sem mestum afla. Þetta eru eiginlega ólympískar veiðar því menn óttast kvótasetningu. Það er reynt að ná góðum tölum ef hinu opinbera skyldi detta í hug að fara að kvótasetja sæbjúgun,“ sagði Lárus Grímsson, skipstjóri á Friðrik Sigurðsson ÁR í samtali við Fiskifréttir í lok október.
Árlega eru gefin út níu leyfi til veiða á sæbjúgum. Skilgreind eru níu veiðisvæði, úti fyrir Austfjörðum, Vestfjörðum og á Faxaflóa en einnig má veiða utan svæðanna. Breytingar voru lagðar fram á reglugerðinni í vor og var þeim meðal annars mótmælt af bæjarstjórn Fjarðabyggðar.
Á fundi á Eskifirði nýverið boðaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra ákveðnari reglur um veiða á sæbjúgum en hann sagði núverandi veiðistjórn „í klessu.“ Kristján Þór sagði að um helmingur sæbjúgnaaflans fengist innan svæðanna. Utan þeirra væru hins vegar stundaðar ólympískar veiðar.
Mestu landað á Austfjörðum
Veiðar á sæbjúga hafa aukist töluvert á síðustu árum. Hlutur Austurlands er töluvert mikill í þeim. Það sem af er þessu fiskári er búið að landa um 1.430 tonnum. Þar er Friðrik Sigurðsson aflahæstur með 436 tonn.
Af þessum afla er búið að landa 1.222 tonnum á Austurland, mest á Djúpavogi og Stöðvarfirði. Í viðtali Fiskifrétta við Lárus kemur fram að báturinn landi nokkurn vegin daglega, mest á Reyðarfirði og Stöðvarfirði þaðan sem aflanum er keyrt til Þorlákshafnar þaðan sem báturinn er gerður út.
Nýjar reglur um strandveiðar og grásleppuveiðar
En það eru ekki bara í vændum breytingar á reglum um veiðar á sæbjúgum. Á fundinum fór ráðherra yfir ýmsar breytingar sem unnið er að innan ráðuneytis hans þessa dagana.
Hann kom til dæmis inn á reglur um strandveiðar, sem breytt var þrátt fyrir mótmæli Austfirðinga í vor. Kristján Þór sagði þörf á að endurgera lögin og frumvarps þar um væri að vænta í febrúar eða mars.
Þá væri ástæða til að skoða lög um fiskmarkaði, sem ekki hefðu breyst lengi og eins væri nauðsynlegt að breyta reglum um grásleppuveiðar. Þar væru munur milli ráðgjafar og þess sem veitt væri og taldi ráðherrann þörf að hlutdeildarsetja veiðarnar. Þá viðurkenndi hann að ríkið hefði verið seint að gefa út veiðidaga síðustu ár.
Enn fremur er von á frumvarpi í þessum mánuði um heildarendurskoðun laga um fiskeldi og í febrúar á frumvarpi um gjaldtöku vegna eldissvæða í sjó.
Sátt að nást um veiðigjöld
Mestum tíma eyddi Kristján Þór í breytingar á veiðigjaldi, sem verið hafa til umsagnar síðustu vikur. Ráðherrann kvaðst ekki eiga von á miklum breytingum á því frumvarpi sem rætt hefði verið töluvert innan ríkisstjórnarflokkanna áður en það var sett fram.
Hann sagði flokkana á Alþingi sammála um að leggja á veiðigjald þótt þeir deildu um með hvaða hætti og hversu hátt. Slíkt kallaði á flóknar samræður og niðurstaðan úr þeim birtist með frumvarpinu.