Stór aurskriða lokar veginum um Þvottárskriður

Útlit er fyrir að vegurinn um Þvottárskriður verði lokaður fram yfir klukkan fjögur í dag eftir að stór aurskriða féll þar í morgun.

„Hún kom niður um níu leytið. Það er fastur liður hjá okkur að keyra inn í skriðurnar og tékka á grjóthruni. Strákarnir frá okkur sem voru í þeim rúnti horfðu á hana koma niður,“ segir Birgir Árnason, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Höfn.

Hann segir skriðuna hafa farið af stað efst í fjallatindunum, farið yfir veginn og út á eitt útsýnisplananna. Hún sé um tveggja metra þykk og 50 metra breið.

Byrjað er að moka skriðunni í burtu en Birgir segir að það verði mikið verk enda skriðan ein „vatnssósa.“ Það taki því væntanlega 5-6 tíma.

Grjóthrun og skriðuföll eru ekki óþekkt á þessum slóðum. Við hliðina eru Hvalnesskriður en þar eru áformaðar varnarframkvæmdir í haust.

Þjóðvegur 1 liggur um skriðurnar og því töluverð umferð um þær. Birgir mildi að enginn hafi verið á ferðinni akkúrat á þeim stað og þeirri stund er skriðan féll. Miklar bílaraðir hafa myndast beggja vegna við og eru starfsmenn Vegagerðarinnar að snúa þeim við.

Talsverð rigning hefur verið á svæðinu en nú er að stytta upp. Ekki er frekari upplýsinga að vænta um færð um skriðurnar fyrr en um klukkan 16:00 í dag.

Mynd: Vegagerðin



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar