Stysta og versta ferðamannasumarið í yfir 15 ár

Friðrik Árnason eigandi Hótel Bláfells á Breiðdalsvík segir að sumarið í ár hafi verið stysta og versta ferðamannasumar hjá hótelinu í yfir 15 ár. Friðrik er búinn að loka veitingastað hótelsins og mun skella í lás á hótelinu sjálfu eftir helgina.

„Sem dæmi um stöðuna má nefna að í fyrrasumar var ég með um 25 manns í vinnu en núna hafa verið sex manns í vinnu hjá mér,“ segir Friðrik í samtali við Austurfrétt.

Fram kemur í máli Friðriks að þótt hann sé bjartsýnn maður að eðlisfari sjái hann ekki fram á góða tíma í náinni framtíð.

„Mér lýst ekki á stöðuna,“ segir hann. „Það sem er verst er þessi óvissa sem ríkir núna í ferðamannageiranum. Það er ekki hægt að gera nein plön fram í tímann í augnablikinu.“

Það er enginn gestur á Hótel Bláfelli í dag og um helgina. Tveir eða þrír eiga bókað á mánudag og þriðjudag en eftir það verður hótelinu lokað.

Á heimasíðu hótelsins fjallar Friðrik einnig um stöðuna og segir: „Við teljum að þetta sé ábyrg ákvörðun í ljósi aðstæðna enda þurfum við að verja reksturinn til að halda áfram starfsemi um ókomna tíð. Við komum tvíefld til baka þegar þetta ástand er yfirstaðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar