Stysta og versta ferðamannasumarið í yfir 15 ár
Friðrik Árnason eigandi Hótel Bláfells á Breiðdalsvík segir að sumarið í ár hafi verið stysta og versta ferðamannasumar hjá hótelinu í yfir 15 ár. Friðrik er búinn að loka veitingastað hótelsins og mun skella í lás á hótelinu sjálfu eftir helgina.„Sem dæmi um stöðuna má nefna að í fyrrasumar var ég með um 25 manns í vinnu en núna hafa verið sex manns í vinnu hjá mér,“ segir Friðrik í samtali við Austurfrétt.
Fram kemur í máli Friðriks að þótt hann sé bjartsýnn maður að eðlisfari sjái hann ekki fram á góða tíma í náinni framtíð.
„Mér lýst ekki á stöðuna,“ segir hann. „Það sem er verst er þessi óvissa sem ríkir núna í ferðamannageiranum. Það er ekki hægt að gera nein plön fram í tímann í augnablikinu.“
Það er enginn gestur á Hótel Bláfelli í dag og um helgina. Tveir eða þrír eiga bókað á mánudag og þriðjudag en eftir það verður hótelinu lokað.
Á heimasíðu hótelsins fjallar Friðrik einnig um stöðuna og segir: „Við teljum að þetta sé ábyrg ákvörðun í ljósi aðstæðna enda þurfum við að verja reksturinn til að halda áfram starfsemi um ókomna tíð. Við komum tvíefld til baka þegar þetta ástand er yfirstaðið.“