Sveitarfélög á Austurlandi misvel sett hvað skuldir varðar
Skuldahlutfall flestra sveitarfélaga á Austurlandi verður undir landsmeðaltali við árslok. Þetta kemur fram í viðauka með skýrslu starfshóps um fjármál sveitarfélaga sem kynnt var fyrir síðustu helgi. Aðeins tvö sveitarfélög, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað, skera sig úr með því að vera með skuldahlutfall sitt yfir meðaltalinu og það töluvert.Áætlað skuldahlutfall Fjarðabyggðar um komandi áramót er 122,6% en var um síðustu áramót 114,4%. Hvað Fljótsdalshérað varðar fer hlutfallið í 112,5% um næstu áramót miðað við áætlun og hefur þá hækkað úr 99,9% frá því um síðustu áramót..
Besta staðan er hjá Fljótsdalshreppi sem er eina sveitarfélagið í fjórðungnum þar sem skuldahlutfallið lækkar, fer úr 68,5% um síðustu áramót og niður í 62.2%. Landsmeðaltalið er rétt rúm 90%.
Skuldahlutfallið sínir m.a. svigrúm sveitarfélaga til nýframkvæmda. Því meira sem þarf af veltufé til að borga skuldir því minna er til annarra verka. Þannig þýðir hátt skuldahlutfall að hugsanlega verði minna um malbikun gatna eða lagningu gangstétta svo dæmi sé tekið. Það getur einnig þýtt að viðkomandi sveitarfélög fái verri vaxtakjör á lán sem þau taka.
Í fyrrgreindri skýrslu, þar sem sagt var að sveitarfélögin þyrftu 33 milljarða króna vegna taps á COVID faraldrinum, kemur fram að einn verst er ástandið í þeim sveitarfélögum sem liggja næst höfuðborginni. Sjálf er borgin með áætlað skuldahlutfall um næstu áramót upp á 81,8% og hækkar það verulega frá s.l. áramótum þegar það var 63,7%. Staðan er mun verri hjá Kópavogsbæ með 115,2% skuldafall um næstu áramót og Hafnarfirði með 134,2% skuldahlutfall þá.
Af öðrum sveitarfélögum á Austurlandi má nefna að á Vopnafirði fer skuldahlutfallið úr 76,5% og í 83,5% samkvæmt áætlun. Á Seyðisfirði fer hlutfallið úr 54,1% og í 65.1%. Svo má nefna Borgarfjörð eystri sem er með neikvætt skuldahlufall upp á -100% og verður það áfram samkvæmt áætlun. En það eru mjög lágar tölur að baki þeim prósentum.