Sveitarstjórnarkosningar verða þann 19. september þrátt fyrir COVID

Sveitarstjórnarkosningar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Mið-Austurlandi munu fara fram þann 19. september, eins og ákveðið var þrátt fyrir uppsveiflu í COVID veirusmitum á landinu þessa stundina.


Þetta kemur fram í máli Björns Ingimarssonar bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði og formanns undirbúningsstjórnar fyrir kosningarnar.

„Við höfum ákveðið að halda okkur ákveðið við þessa dagsetningu“, segir Björn í samtali við Austurfrétt. „Við höfum fulla trú á að ekkert muni breytast svo til hins verra til að breyta stöðunni.“

Björn segir að lögð verði mikil áhersla á að virða þær takmarkanir sem eru í gildi hvað COVID veiruna varðar, það er sprittun og tveggja metra reglan og hann á ekki von á öðru en kosningarnar gangi eðlilega fyrir sig.

Björn bendir á að forsetakosningarnar í vor hafi gengið mjög vel þrátt fyrir COVID og engin ástæða sé til að annað gildi um kosningarnar á Mið-Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar