Sýnir og segir frá lífinu bakvið tjöldin hjá Hatara í Eurovision

Heimildamyndin „A Song Called Hate“ um þátttöku listahópsins Hatara í Evrópusöngvakeppninni vorið 2019 verður sýnd í Herðubíó á Seyðisfirði um helgina. Framleiðandi myndarinnar fylgdi hópnum eftir til að kanna viðbrögð og áhrif pólitískrar listar. Hún lýsir ferðalaginu sem spennuþrungnu.

„Spurningin, sem ég fór af stað með, var hvort óþekktir jaðarlistamenn frá Íslandi gætu brotist í gegnum meginstrauminn með skilaboð sín, eða hvort þeir verði samdauna glysinu í Eurovision.

Við fjöllum um tilgang listarinnar og listamanna og setjum gjörninginn í stærra samhengi,“ segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framleiðandi myndarinnar. Hún fylgir myndinni austur og verður svarar spurningum eftir sýningarnar í Herðubreið.

Allir á móti Hatara

Anna Hildur, sem í um tvo áratugi starfaði sem umboðsmaður norrænna tónlistarmanna erlendis áður en hún snéri sér að kvikmyndagerð, segir hugmyndina að myndinni hafa kviknað þegar Hatari sendi lagið „Hatrið mun sigra“ inn í söngvakeppni sjónvarpsins. Boðskapur lagsins hafi vakið áhuga hennar og hún farið að velta fyrir sér hvað gerðist næst ef svo færi, sem varð, að það ynni og yrði fulltrúi Íslands í lokakeppninni í Ísrael.

Það eitt og sér að lokakeppnin skyldi haldin í Ísrael skapaði miklar umræður og þrýstingur var á að Ísland tæki ekki þátt í keppninni. „Við þræðum hvar línurnar liggja. Hópurinn brýtur allar reglur sniðgönguhreyfingarinnar en vill samt styðja málstaðinn. Því lendir hann í því á tímabili að vera með alla á móti sér,“ segir Anna Hildur.

Gjörningurinn í stöðugri þróun

Hún lýsir atriði Hatara sem gjörningi, það hafi verið meira en eitt lag og boðskapur þess, en hópurinn snerti á fleiri málefnum til dæmis með Iceland Music News, sem var áróðursmaskína Hatara. Þá átti hópurinn í samtarfi og samskiptum við bæði palestínska og ísraelska listamenn sem var eldfimt.

„Þetta er spennuþungrið ferðalag og við veltum fyrir okkur hvað þarf til og hvernig það tekur á að komast alla leið. Það var mikil spenna og taugatrekkingur stundum og velt upp erfiðum spurningum sem allir þurftu að svara. Til dæmis varaði faðir eins palestínska listamannsins við því að hann gæti verið í hættu. Gjörningurinn var alltaf í þróun.“

Líflegar umræður eftir myndina

Anna Hildur hefur fylgt myndinni eftir við nokkrar sýningar, meðal annars svaraði hún spurningum gesta í Háskólabíói í gærkvöldi. „Umræðan verður oft lífleg og veltur á hverju gestir hafa áhuga á. Margir hafa spurt út í samband mitt við hópinn, ég þurfti að vera nærri þeim en halda samt fjarlægð, hvort við höfum verið í hættu, sýn mína á Eurovision og fleira.

Myndin vekur spurningar og ekki er hægt að svara öllum. Ég get svarað fyrstu spurningunni minni játandi nú en stend eftir með spurningar um tilgang listarinnar og listamanna.“

Hún hlakkar til samtalsins við Austfirðinga. „Það var haft samband við mig og mér boðið að koma austur til að sýna myndina, sem mér fannst heiður. Það er alltaf mikil orka á Seyðisfirði og gaman að koma þangað. Því er ég ánægð með að fá þetta tækifæri til að hitta Austfirðinga.“

Myndin verður sýnd í kvöld klukkan 18:00 og annað kvöld klukkan 20:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.