Syrtir í álinn fyrir kjördag

Veðurspá laugardags, kjördags Alþingiskosninga, virðist heldur fara versnandi. Von er á mikilli snjókomu á Austfjörðum. Veðurfræðingur telur líkur á að þar verði ófært innanbæjar og jafnvel að einhvers staðar skapist snjóflóðahætta.

Á þessu er vakin athygli í yfirliti Bliku sem Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, skrifar. Þar segir að lægð komi upp að landinu á föstudag og strax annað kvöld byrji að snjóa frá henni á Austfjörðum. Að morgni laugardags muni snjóa um allan austurhelming landsins en snjókoman verði þéttust á Austfjörðum og líkur á mikilli uppsafnaðri úrkomu.

Þannig sýnir spáin 29-64 mm á Fjarðarheiði og 36-71 mm í Neskaupstað. Nánar segir Einar að á norðanverðum Austfjörðum geti uppsöfnuð úrkoma orðið 50-100 mm. Þessi mikla uppsafnaða úrkoma geti kallað á viðbúnað vegna mögulegrar snjóflóðahættu.

Enn virðist óvissa hvort mesti vindstrengurinn nái upp á land eða haldi sig úti fyrir Austfjörðum. Búist er við að það hvessi þegar líður á daginn þannig að nýi snjórinn fjúki í skafla. Slíkt geti skapað ófærð innanbæjar á Austfjörðum og umhverfis Egilsstaði. Vindáttin ræður hvort Fagridalur verði í skjóli en á Fjarðarheiði er von á 12-15 m/s allan daginn. Til viðbótar er hætta á sviptivindum í kringum Höfn og á sunnanverðum Austfjörðum.

Kjörstjórnir hafa undanfarna daga rýnt í veðurspár og undirbúið mögulegar aðgerðir, svo sem að einnig verði kosið á sunnudag, þegar veðrið á að vera gengið niður. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst verða engar stórar ákvarðanir teknar fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Snjóflóðaeftirlitsmenn Veðurstofu Íslands hafa í vikunni tekið gryfjur og skoðað gögn eftir snjókomu undanfarinna daga. Samkvæmt yfirliti ofanflóðadeildarinnar hefur eitt lítið snjóflóð fallið, í Reyðarfirði á mánudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.