„Það er miklu viðurkenndara að eiga við geðræn vandamál í dag“

„Mætingin var vonum framar, en yfir 100 manns mættu á viðburðinn,“ segir Erla Jónsdóttir, formaður Ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs, sem stóð fyrir viðburðinum „Útmeð´a“ í Vegahúsinu á Egilsstöðum í vikunni.


Útmeð´a er samstarfsverkefnis Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Í samvinnu við grafíska hönnuðinn Viktor Weisshappel hafa verið hannaðar peysur og bætur þar sem hver og einn getur útbúið sína eigin, einstöku peysu. Hugmyndin er að taka orð yfir ástand eða tilfinningar sem fólk á til að fela, setja á peysu og bera með stolti. Alls eru ellefu útgáfur af bótum með hugtökum á borð við kvíði, reiði, þunglyndi og seigla í boði en hægt er að kaupa eins margar bætur og hver vill og raða þeim á að vild.

„Kristbjörg Mekkín, varaformaður Ungmennaráðs Fljótsdalsdéraðs, fór á svipaðan viðburð fyrir sunnan og kom með hugmyndina til okkar. Ungmennaráðið hefur unnið mikið að málefnum hvað varðar geðheilbrigði og fannst okkur því tilvalið að halda eins viðburð hjá okkur,“ segir Erla, en síðastliðinn þriðjudag stóð ráðið fyrir opnum viðburði þar sem allir gátu komið og hannað sína eigin peysu og allur ágóðinn rann til Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins.

Allir spenntir að hanna sína eigin peysu
Erla segir að viðburðurinn hafi vakið áhuga meðal ungs fólks á Héraði. „Það mættu aðallega nemendur frá grunn- og menntaskólanum, en mér fannst mjög gaman að sjá hvað þetta var blandaður hópur og hvað allir skemmtu sér vel, já og auðvitað hvað allir voru spenntir að fá að hanna sína eigin peysu.“

Vitundarvakning í geðheilbrigðismálum
Erla segist finna fyrir mikilli vitundarvakningu í geðheilbrigðismálum. „Það er miklu algengara að fólk segi frá því þegar því líður illa. Margar byltingar hafa átt sér stað seinustu ár sem hafa opna augu margra. Ungmennaráðið hélt þing í fyrra sem fjallaði einmitt um geðheilbrigði em það sýnir vel hversu viljum við erum til að opna umræðuna. Það er miklu viðurkenndara að eiga við geðræn vandamál í dag og fólki finnst það ekki þurfa að fela þau heldur getur talað opinskátt um líðan sína.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar