Tæplega 16% allra íbúða á Austurlandi stóðu auðar 2021

Samkvæmt úttekt manntalsdeildar Hagstofu Íslands á gögnum frá árslokum 2021 reiknast deildinni til að á þeim tíma hafi alls 15,7% allra íbúða á Austurlandi staðið auðar.

Úttekt þessi birtist síðastliðinn vetur en þar voru borin saman ýmis gögn úr manntalinu 2011 annars vegar og 2021 hins vegar. Í ljós kemur að þrátt fyrir þennan fjölda íbúða sem auðar stóðu 2021 fækkaði þeim frá 2011 en aðeins um 0,1 prósentustig. Auðar íbúðir austanlands 2011 voru alls 15,8% af heildarfjölda íbúða þá.

Í rýni sinni miðar Hagstofan við allar íbúðir sem eru stærri en 25 fermetrar og inni í þeim útreikningum teljast sumarbústaðir sem búið er í eða íbúðir fyrir skjólstæðinga stofnanna ekki með íbúðum.

Töluverða athygli vakti fyrir rúmu ári síðan þegar Íbúasamtök Stöðvarfjarðar framkvæmdu sína eigin úttekt á húsnæði í þorpinu sem stæði meira eða minna autt allan ársins hring og gæti hugsanlega nýst þeim er áhuga hafa að setjast þar að til langframa. Niðurstaða þeirra var að 22% alls húsnæðis þar stæði tómt lunga ársins og væri aðeins nýtt fáeina daga eða vikur ár hvert af eigendum. Það nokkuð á pari við sama hlutfall í byggðakjörnum á Vestfjörðum fyrir þremur árum.

Meðfylgjandi tafla frá Hagstofunni sýnir glögglega hversu mikið húsnæði stóð meira eða minna autt í öllum landshlutum í lok árs 2021.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar