Takmörkuð umhverfisáhrif af efnistöku við Eyri

Ekki er talið að vinnsla á 520 þúsund rúmmetrum á efni úr sjó við Eyri í Reyðarfirði hafi teljandi áhrif á umhverfið í nágrenninu. Þar er eitt stærsta setsvæðið á grunnsævi í firðinum.

Þetta kemur fram í tillögu að matsáætlun sem lögð hefur verið fram fyrir hönd hafnarsjóðs Fjarðabyggðar. Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar er til 5. janúar.

Gert er ráð fyrir að vinna allt að 520 þúsund rúmmetra af efni af svæðinu á næstu tíu árum. Drjúgur hluti þess er ætlaður í Mjóeyrarhöfn en annar áfangi hennar er stærsta framkvæmdin hjá Fjarðabyggð í ári. Áætlað er að í svæðið þurfi 500 þúsund rúmmetra.

Efnistökusvæðið er 108 þúsund fermetrar að stærð og gert er ráð fyrir að vinna efni niður á allt að 25 metra dýpi og allt að 40 metra dýpi ef tækifæri gefst til.

Efnissvæðið er við svokallaðan Gripalda, um 1,5 metrum innan við laxeldiskvíar Laxa, svo til beint á móti Hólmanesinu.

Í tillögunni kemur fram að efnisnámið sé ekki hafa umtalsverð áhrif á botndýralíf, fiskeldi, neðansjávarlandslag eða aðra umhverfisþætti. Upplýsingar eru taldar liggja nokkuð ljósar fyrir og því sé ekki þörf á frekari rannsóknum fyrir frummatsskýrslu.

Mestu áhrifin verða á vistkerfið sem hverfur við efnistökuna og endurnýjast ekki nema á löngum tíma. Þrátt fyrir að botndýralífið sé fjölbreytt er það hvorki talið sérstakt fyrir Austurland né landið í heild.

Nokkuð hefur verið lagt í rannsóknir við Eyri, meðal annars í ljósi slæmrar reynslu Fjarðabyggðar af dælingu efnis við Ljósá.

Gert er ráð fyrir að frummatsskýrsla liggi fyrir í næsta mánuði og álit Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum í byrjun sumars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.