Telur reykskynjara hafa bjargað lífi heimilisfólks
Slökkviliðsstjóri segir reykskynjara og árvekni heimilisfólks hafa skipt sköpum þegar eldur kom upp í einbýlishúsi í Neskaupstað í gærkvöldi. Nokkrar skemmdir eru á húsinu eftir eldsvoðann.Það var rétt fyrir hálf ellefu í gærkvöldi sem slökkvilið Fjarðabyggðar fékk útkall vegna eldsins. Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri, segir hjónin sem í húsinu búa hafa verið farin að sofa en vaknað við reykskynjara og brugðist skjótt við.
„Ég vil meina að reykskynjarinn hafi bjargað lífi þeirra. Það var ekki mikill reykur út úr húsinu þannig að utanaðkomandi hefðu ekki séð að þarna væri eitthvað að brenna. Á svona stundum skiptir hver mínúta máli og það vantaði ekki margar upp á eldurinn yrði talsvert heitur og erfiður,“ segir Guðmundur.
Hann býr skammt frá og var fyrstur á staðinn. Guðmundur náði að sprauta úr einu litlu slökkvitæki upp í þak í þvottahúsi áður en reykkafarar slökkviliðsins komu á vettvang. Svo vel vildi til að verið var að setja ný nagladekk á annan slökkvibílinn og var hann á ferðinni í bænum því prófa þurfti dekkin. Hann var því skjótur á vettvang.
Guðmundur Helgi segir slökkvistarfið allt hafa gengið hratt og vel. „Það logaði í loftinu í húsinu, stofu og eldhúsi. Við rufum loftið og slökktum tiltölulega fljótt.“
Hann segir ekki ljóst hversu illa farið húsið sé eftir eldinn. Reykur og sót hafi borist um það allt og nokkuð af vatni, þótt ekki hafi verið notað mikið af því. Eldurinn virtist loga í kringum útblástursrör frá kamínu og þurfti slökkviliðið að rífa niður úr lofti og úr einum vegg til að komast í veg fyrir glóð.
„Það lítur alltaf illa út þegar vatn og sót eru á ferðinni. Eldhúsið og stofan eru illa farin en þakrýmið slapp að mestu. Einangrunin hélt eldinum niðri þannig að eldskemmdir eru ekki miklar. Þetta er timburhús og vel byggt og frágengið.“
Guðmundur Helgi segir að eldurinn hafi verið slökktur á 15-20 mínútum og eftir hálftíma hafi verið búið að staðfesta að öll glóð væri dauð. Svæðið var afhent lögreglu tíu mínútur yfir ellefu, rúmum 40 mínútum eftir að útkallið barst.
Hjónin fóru á sjúkrahús til aðhlynningar vegna gruns um reykeitrun en þau höfðu reynt að slökkva sjálfir áður en hjálp barst.
Mynd úr safni. Hún tengist fréttinni ekki beint.