Þrír meiddust í rútuslysi í Víðidal

Þrír farþegar slösuðust lítillega þegar rúta með 25 erlendum ferðamönnum ók aftan á snjóruðningstæki í Víðidal á Fjöllum í dag. Björgunarsveitir aðstoðuð fólkið til byggða sem og fleiri ferðamenn sem voru í vandræðum á Fjöllum.

Þrír farþegar kenndu sér meins en ekki svo mikils að þörf væri á sjúkraflutningi og voru þeir því fluttir með björgunarsveitarbílum til skoðunar á heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum.

Þangað komu þeir upp úr klukkan hálf sex í kvöld, um svipað leyti og aðgerðum björgunarsveita á slysstað var að ljúka.

Útkallið barst um hálf þrjú í dag og á vettvang fóru félagar frá átta björgunarsveitum frá Aðaldal, Laugum, Mývatni, Húsavík, Vopnafirði, Jökuldal, Fljótdalshéraði og Reyðarfiðri.

Búið er að koma rútunni út af veginum og eru björgunarsveitir á leið í Egilsstaði með aðra farþega. Um borð voru 25 ferðamenn frá Taívan og svo bílstjóri.

Sveinn Halldór Oddsson Zoega í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi segir brjálað veður hafa verið í Víðidal í dag, blint og hvasst og versnað þegar á leið.

Bæði björgunarsveitarbílar og sjúkrabíll lentu í vandræðum á leið á vettvang. Draga þurfti sjúkrabílinn upp eftir að hann fór út af. „Það var lítið skyggni og menn voru kannski að flýta sér í upphafi meðan ekki var ljóst hvernig staðan var,“ segir Sveinn.

Í bakaleiðinni komu björgunarsveitir fimmtán einstaklingum úr öðrum bílum sem fastir voru í Jökulkinn í skjól í Möðrudal og á Egilsstöðum.

Veginum hefur verið lokað og fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að útlit sé fyrir að svo verði næsta sólarhringinn hið minnsta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.