Þrjú varnarhólf losna undan höftum riðuskilgreiningar um áramót

Þrjú varnarhólf fyrir sauðfjárveikivarnir á Austurlandi losna undan höftum riðuskilgreiningar um áramótin. Þar með verður aflétt höftum á flutningi á fé innan hólfanna.

Um er að ræða Norðausturhólf, Héraðshólf og Austfjarðahólf. Riðutilfelli komu síðast upp í hólfunum árið 1997 en svæði er skilgreint sem sýkt í 20 ár frá staðfestingu riðu í hólfinu.

Norðausturhólfinu hafði áður verið skipt í tvennt í sýkt og ósýkt. Sýkta svæðið, Jökuldalur og Jökulsárhlíð austan Smjörfjalla, telst nú orðið hreint. Það nær austur að Jökulsá í Fljótsdal.

Héraðshólfið er svæðið milli Jökulsár á Brú/Dal og Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljóts. Austfjarðahólfið er frá ósum Lagarfljóts að Grímsá en þaðan er lína dregin um Sandfell og Áreyjatind í Reyðarfjörð.

Afléttingin þýðir að flytja má fé frjálst innan hólfanna. Ekki má hins vegar flytja fé yfir varnarlínur nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar.

Suðurfjarðahólf, sem er þá sunnan Lagarfljóts og Reyðarfjarðar samkvæmt þeirri skilgreiningu sem áður er nefnd, telst áfram sýkt svæði. Þar greindist síðast riða árið 2005 og verður hömlum þar því ekki aflétt fyrr en 2025.

Í tilkynningu Matvælastofnunar er rifjað upp að riðuveiki hafi farið illa með Austfirðinga á árum áður. Ráðist var gegn veikinni með skipulögðum niðurskurði sem hófst haustið 1986. Á næstu fimm árum var allt fé frá Jökulsá í norðri austur í Reyðarfjarðarbotn skorið.

Þær aðgerðir voru hluti af aðgerðum sem ráðist var í á landsvísu. Á árunum 1986-1989 var skorið niður allt fé hjá tæplega 400 fjárbúum, alls tæplega 80.000 kindur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.