Þurfum að auðvelda kynslóðaskipti í landbúnaði

Berglind Häsler, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gerði matvælaframleiðslu á Íslandi að umtalsefni í jómfrúarræðu sinin á Alþingi í dag. Berglind situr á þingi þessa dagana sem varamaður þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er fjarverandi.

Berglind þekkir ágætlega til í íslenskri matvælaframleiðslu þar sem hún hefur búið að Karlsstöðum í Berufirði undanfarin fimm ár. Markmiðið var að vera þar með lífræna framleiðslu en búið hefur verið að baki Bulsum og Sveitasnakki. Bulsurnar eru til sölu víða en Sveitasnakkið hefur verið sett í hvíld í bili.

Berglind sagði í ræðunni í dag að ágætlega hefði tekist til í fyrstu. Ýmiss stuðningur hefði fengist en hindranirnar einnig verið margar svo sem skortur á þriggja fasa rafmagni, lélegt netsamband, erfiðar samgöngur, hár húshitunarkostnaður, mikill flutningskostnaður og takmarkaður stuðningur við lífræna ræktun eða óhefðbundnar búgreinar.

Eftir mikla þróunarvinna hefði framleiðslan hafist og fljótt hefði þurft að bæta við hana.

„Við reyndum að laða að okkur fjárfesta og samstarfsaðila til að efla framleiðsluna. Það gekk ekki sem skildi og á endanum neyddumst við til að setja framleiðsluna til hliðar og einbeita okkur að öruggari tekjum.

Þetta er sennilega saga margra bænda á Íslandi í dag. Það þarf jú að borga þessa reikninga,“ sagði Berglind.

Á vegum landbúnaðarráðherra er komin á fót verkefnisstjórn sem ætlað er að móta matvælastefnu fyrir Ísland. Ræða Berglindar var innlegg í þá vinnu þar sem hún sagði að verkefnastjórnin yrði að sýna hugrekki.

„Íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum, við þurfum að auðvelda kynslóðaskipti. Það er mikið talað um nýsköpun og það er mikil krafa um nýjar og ferskar hugmyndir. En það er ekki síður mikilvægt að styðja við öll þau fjölmörgu verkefni sem þegar eru unnin um allt land á hverjum dagi með blóði, svita og tárum,” sagði Berglind.

„Hefjum íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu upp til þeirrar virðingar sem hann á skilið. Ísland hefur alla burði til að vera í fararbroddi hvað varðar fjölbreyttan, sjálfbæran og arðbæran landbúnað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar