Tíu milljónir til Borgarfjarðar úr Öndvegissjóði

Á dögunum var úthlutað styrkjum úr sérstökum Öndvegissjóði Brothættra byggða, sem stofnað var til í ár sem hluta að aðgerðum til að bregðast við neikvæðum afleiðingum Covid-19 faraldursins. Valin verkefni af hverju svæði innan Brothættra byggða gátu sótt í úthlutunina og hlaut verkefnið Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg veglegan styrk.

Alþingi samþykkti fyrr í ár að veita aukalega 100 m.kr. til Brothættra byggða á árinu 2020 m.a. til að hægt væri að styðja við stærri frumkvæðisverkefni íbúa sem skapa atvinnu í byggðarlögunum. 60 milljónum var skipt jafnt milli byggðarlaganna 7 til úthlutunar en 40 milljónir runnu í Öndvegissjóð þangað sem verkefnisstjórn hvers byggðarlags vísaði tveimur verkefnum af sínu svæði.


40 milljónir til 6 verkefna

Við úthlutun úr Öndvegissjóði skiptust milljónirnar 40 á 6 verkefni. Hæstu styrkina hlutu Borgarfjarðarhreppur, vegna verkefnisins Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg, og Ungmennafélagið Leifur heppni, til viðhalds og endurbóta á Krossneslaug í Norðurfirði á Ströndum, en hvort verkefni hlaut 10 milljónir króna í styrk. Þá runnu 8,7 milljónir til þróunar á vefsvæðinu Strandir.is, 5,7 milljónir til uppbyggingar á kjötvinnslu í Árdal í Kelduhverfi, 4 milljónir til uppsetningar á útlistaverki á Þingeyri og 1,6 milljónir til undirbúnings Baskaseturs í Reykjafirði.


Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg

Verkefni Borgarfjarðarhrepps hafði áður hlotið styrk upp á 5 milljónir úr frumkvæðissjóði Betri Borgarfjarðar. Markmið þess er að ráðast í endurbætur og breytingar á félagsheimilinu Fjarðarborg til að það nýtist betur árið um kring og geti hýst fjölþætta starfsemi. Er þar meðal annars horft til skrifstofuaðstöðu sem einstaklingar geta leigt til að sinna verkefnum í fjarvinnu, líkamsræktaraðstöðu og endurnýjunar og viðhalds á ýmsum hlutum hússins.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að gera húsið að vinnustað og auka nýtinguna árið um kring, án þess að úthýsa þeirri starfsemi sem þegar er í húsinu,“ segir Alda Marín Kristinsdóttir sem er verkefnisstjóri Betri Borgarfjarðar. Skilmálar úthlutunarinnar úr Öndvegissjóði voru að framkvæmdum fyrir styrkina yrði lokið í vetur og er nú unnið að undirbúningi framkvæmda. „Það er verið að skoða og forgangsraða hvað verður farið í fyrst. Það er bæði þörf fyrir ákveðnar breytingar á húsnæðinu og síðan viðhald á ýmsu og það verður farið á fullt í að framkvæma fyrir þessa styrki í vetur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar