Töluverður eldur neðan í brúnni

Við fyrstu sýn virðast minniháttar skemmdir hafa orðið á brúnni yfir Lagarfljót, milli Egilsstaða og Fellabæjar, eftir að eldur kviknaði í rafmagnslögn undir brúnni.

Ingvar Birkir Einarsson, varaslökkviliðsstjóri í Múlaþingi, segir að svo virðist sem skammhlaup hafi orðið í raflögn sem liggur í stokk undir brúnni.

Útkall vegna eldsins barst klukkan 13:38 í dag. Þegar slökkviliðið kom á staðinn lagði talsverðan reyk frá brúnni auk þess sem smá eldur hafði brotist upp í gegnum brúargólfið.

Ingvar segir fljótt hafa tekist að hefta þann hluta eldsins en meira mál var að ráða við töluverðan eld sem logaði neðan í brúnni. Til þess fékk slökkviliðið aðstoð starfsmanna Isavia á Egilsstaðaflugvelli sem komu á bát og fengu slöngu frá slökkviliðinu til að sprauta á eldinn. Með þeirra aðstoð tókst að ráða niðurlögum eldsins á um 20 mínútum.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Ingvar Birkir telja að skemmdir á brúnni væru minniháttar en Vegagerðin myndi meta þær nánar. Við slökkvistarfið þurfti meðal annars að saga lítið gat í brúargólfið til að drepa í glóð sem hafði komist undir það.

Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.