Tryggir vonandi að við þurfum ekki í niðurskurð

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands vonast til að 450 milljóna aukning til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni fleyti stofnuninni í gegnum árið 2018. Varað var við að óbreytt fjárlög þýddu niðurskurð.

Meirihluti fjárlaganefndar lagði fram breytingatillögu við fjárlagafrumvarpið seint fyrir aðra umræðu um fjárlögin sem verður samkvæmt dagskrá Alþingis í dag.

Þar er meðal annars gert ráð fyrir 450 milljóna hækkun til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Ekki er enn ljóst hve stór hluti þess fjár kemur í hlut HSA.

Í minnisblaði forstjóra HSA, Guðjóns Haukssonar, sem lagt var fyrir austfirskar sveitastjórnir var varað við að skera þyrfti niður þjónustu stofnunarinnar ef framlög hennar hækkuðu ekki fyrir árið 2018.

„Þetta tryggir vonandi að við þurfum ekki í niðurskurðaraðgerðir en reksturinn verður áfram í járnum,“ segir Guðjón.

Hann segir að stjórnendur HSA horfi jafnframt til þess að fá skerf af 200 milljónum sem ætlaðar eru til tækjakaupa á landsvísu og 100 milljóna til sjúkraflutninga.

Hann fagnar því að meirihluti fjárlaganefndar hafi brugðist við málflutningi stjórnenda heilbrigðisstofnanna. „Ég hef fullan skilning á að það var stuttur tími til að vinna fjárlögin. Þau eru leiðrétt eftir að sjónarmið landsbyggðarinnar hafa verið sett fram sem er vel.“

Guðjón bætir því hins vegar við að framundan sé mikilvægt mál, fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Hana verði byrjað að vinna eftir áramót.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.