Tvö fyrirtæki á Austurlandi valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita

Tvö fyrirtæki á Austurlandi, Nielsen restaurant og Sauðagull hafi verið valin af Icelandic Startups til að taka þátt í viðskiptahraðlinum „Til sjávar og sveita - frá hugmynd í hillu". Tíu sprotafyrirtæki voru valin en verkefnið leggur áherslu á sjálfbærar lausnir í landbúnaði og sjávarútvegi. Alls sóttu yfir 70 fyrirtæki um þátttöku í verkefninu.

„Þetta eru alveg frábærar fréttir fyrir okkur,“ segir Sólveig Edda Bjarnadóttir annar eigenda Nielsen restaurant í samtali við Austurfrétt. „Við ætlum að þróa nýja gerð af salatolíum og hugsanlega nota hráefni héðan úr sveitinni en það á eftir að koma í ljós.“

Sólveg Edda segir að þessi viðurkenning sé kærkomin fyrir þau hjónin, hana og Kára Þorsteinson. „Það er gott að fá þetta í hendurnar á þessum tímum þar sem ljóst er að veitingarekstur verður erfiður í vetur vegna COVID,“ segir Sólveig Edda.

Byrjuð að framleiða úr sauðamjólk

Ann-Marie eigandi Sauðagull segir að hún sé að vonum afar ánægð með að hafa orðið fyrir valinu. Hún er þegar með framleiðslu á fetaosti og konfekti úr sauðamjólk en nú gefst tækifæri til að þróa nýjar vörur.

Aðspurð um hvernig vörum hennar hafi verið tekið segist Ann-Marie ekki geta kvartað. „Ég bauð upp á þessar vörur mínar á jólamarkaði í fyrra og þær seldust upp á innan við þremur tímum,“ segir hún.

Ann-Marie fær sauðamjólkina hjá tengdaföður sínum á bænum Egilsstöðum í Fljótsdal og mjólkar sjálf ærnar. „Svo fæ ég inni í félagsheimilinu með framleiðsluna en þar er vottað eldhús,“ segir hún.

Í tilkynningu segir að Icelandic Startups hafi umsjón með hraðlinum í samstarfi við Íslenska sjávarklasann og er verkefnið styrkt af Matarauði Íslands, Nettó og Landbúnaðarklasanum.  Þau fyrirtæki sem valin eru til þátttöku fá tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum undir leiðsögn sérfræðinga í tíu vikur og aðgang að breiðu tengslaneti.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar