Um helmingur makrílkvótans kominn í hús
Reikna má með að tæplega 70.000 tonn af makríl hafi veiðst það sem af er sumri. Er um helmingur af 138.000 tonna kvóta því kominn í hús.Bregður getur til beggja vona hvort kvótinn náist í ár enda langt liðið á veiðitímabilið. Þannig segir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í samtali við Austurfrétt að hann sé hvorki svartsýnn né bjartsýnn á að kvótinn náist eins og staðan er í dag.
„Það kemur bara í ljós hvort dæmið gengur upp,“ segir Gunnþór. „Sem stendur hefur verið mjög góður gangur á veiðunum í Síldarsmugunni og spurningin er hvort sú góða veiði halda áfram um stund.“
Markaður fyrir makríl er góður þessa stundina og ekkert síðri en hann var á síðasta ári, að sögn Gunnþórs. Verðið sem fæst fyrir makrílinn liggur nú á bilinu 1.600 til 1.800 dollarar fyrir tonnið, fer eftir stærð og hvering makríllinn er verkaður.
Á vefsíðu Fiskistofu var heildaraflinn sagður kominn í tæp 60.000 tonn fyrir helgina. Gunnþór segir að ef veiðinni um helgina sé bætt við sé magnið nær 70.000 tonn.