Undirbúa að bjóða fullorðnum bólusetningu gegn mislingum
Innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands er unnið að því að bjóða fullorðnum einstaklingum upp á bólusetningu gegn mislingum. Ekki hafa greinst fleiri tilfelli af mislingum eftir að einstaklingur, búsettur á Norðausturlandi, veiktist í síðustu viku.„Bólusetningar barna gengu vel. Við lögðum áherslu á þær því þau eru viðkvæmari fyrir sjúkdóminum. Við erum að vinna í hverjum öðrum verði boðin bólusetning og eigum von á að geta tilkynnt um það fljótlega,“ segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA. Horft verður til þeirra einstaklinga á Vopnafirði og nærsveitum sem ekki teljast fullbólusettir.
Hérlendis hefur verið bólusett við mislingum frá árinu 1976. Bólusett hefur verið fyrst við 18 mánaða aldur og aftur þegar börn eru orðin 12 ára. Þau teljast þar með fullbólusett. Heimilt er að víkja frá þessu við sérstakar aðstæður en það var gert í vikunni. Að auki teljast einstaklingar sem fengið hafa mislinga vera varðir.
Um helgina var staðfest að einstaklingur á Þórshöfn hefði greinst með mislinga. Hann sótti þjóðahátíð á Vopnafirði sunnudaginn fyrir viku. Ekki hafa enn greinst fleiri tilfelli en meðgöngutími mislinga getur verið 1-3 vikur auk þess sem einstaklingar geta smitað í fjóra daga áður en þeir fá einkenni.
Mikilvægt að huga að bólusetningum
Þetta er annað tilfellið af mislingum sem greinist hérlendis á árinu en fleiri gamalkunnir sjúkdómar, svo sem kíghósti, hafa skotið upp kollinum að undanförnu. Þótt þátttaka í bólusetningum hafi almennt verið góð hérlendis hefur ekki sami árangur náðst alls staðar í heiminum. Því hefur verið brýnt fyrir Íslendingum á ferðalögum að yfirfara bólusetningar sínar, jafnvel þótt aðeins sé farið til Bandaríkjanna eða Evrópu.
Landlæknisembættið er að hefja átak um bólusetningar. Í viðtali við Kamillu Sigríði Jósefsdóttur, yfirlækni bólusetninga hjá embætti landlæknis í Kastljósi RÚV í gær, kom fram að bólusetningarhlutfall sé yfirleitt lægst þar sem hreyfanleiki fólks sé mestur. Til dæmis eigi námsmenn sem flytji erlendis það til að gleyma að skrá bólusetningar sem þeir hafi fengið þar við heimkomu.
Embættið gefur árlega út skýrslur um bólusetningar barna eftir umdæmum. Samkvæmt nýjustu skýrslunni fyrir árið 2022 var þátttaka á Austurlandi í bólusetningum gegn mislingum 93% hjá 18 mánaða börnum og 92% hjá 12 ára.
Mislingar: Einkenni og viðbrögð
Einkenni mislinga byrja líkt og í flensu en á þriðja eða fjórða degi koma fram rauð útbrot, sem eru einkennandi fyrir sjúkdóminn. Hafa skal samband við lækni í síma 1700 eða netspjall Heilsuveru ef grunur vaknar um einkenni.
Nánari upplýsingar um einkenni og viðbrögð við mislingum er að finna á vef embættis landlæknis.