Upphitun Fjarðabyggðarhallarinnar í forgang

„Mér finnst mjög mikilvægt að hafa ungmennaráð til að sjá hvað ungu fólki finnst og að það geti komið sínum hugmyndum á framfæri, ekki bara eldra fólk, því það sér hlutina allt öðrum augum heldur en við,“ segir Jóhanna Lind Stefánsdóttir, fimmtán ára nemandi í Nesskóla í Neskaupstað, en hún er ein þeirra sem á sæti í ungmennaráði Fjarðabyggðar.



Ungmennaráðið hefur verið starfandi frá árinu 2008 og er skipað fulltrúum úr 8. til 10. bekk allra grunnskóla í Fjarðabyggð, tveimur fulltrúum Verkmenntaskóla Austurlands og tveimur sameiginlegum fulltrúum íþróttafélaga, ungmennafélaga og unglingadeilda björgunarsveitanna.

Ráðinu er ætlað að efla umfjöllun bæjaryfirvalda um málefni sem tengjast ungu fólki en gerir það með því að koma skoðunum og tillögum ungs fólks til viðeigandi aðila innan stjórnkerfis sveitarfélagsins og með umfjöllun og umsögnum um einstök mál sem snerta aldurshópinn sérstaklega.

Geðheilbrigðismál í skólum og samgöngumál unglinga var meðal þess sem rætt var á árlegum fundi ungmennaráðs Fjarðabyggðar og bæjarstjórnar sem haldinn var í upphafi árs.


Sex málefni lögð fram

Ungmennaráðið lagði fram sex mál á fundinum – eflingu geðheilbrigðisþjónustu í skólum, bætta loftræstingu í íþróttahúsum sveitarfélagsins, uppbyggingu fjallahjólagarðs í Oddsskarði, upphitun Fjarðabyggðarhallarinnar, bætt aðgengi að æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir, eflingu tónlistarnáms og samgöngumál ungmenna þar sem því var sérstaklega velt upp hvers vegna ekki væri frítt fyrir 16-18 ára í almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins.


Upphituð Fjarðabyggðarhöll í forgang

„Mér fannst fundurinn með bæjarstjórn ganga mjög vel, það var hlustað vel á okkur og margir stóðu með okkur. Það er mjög líka mjög gaman að fá að koma fram og segja sínar skoðanir á málunum og vonandi komast flestar tillögurnar í gegn,“ segir Jóhanna Lind.

Aðspurð hvort eitthvað málefni af þeim sem lögð voru fram standi henni framar en annað segir hún: „Já, mér finnst að það eigi að hita Fjarðabyggðarhöllina. Það er mjög mikil meiðslahætta í henni vegna kulda og við erum með helling af dæmum um slitin krossbönd, rifna vöðva, tognanir og fleira vegna þessa. Það er mjög erfitt að hlaupa í höllinni vegna kulda og sérstaklega vont fyrir astmasjúklinga. Það myndast oft klaki við línuna sem fólk rennur á og meiðir sig. Maður þarf einnig að klæða sig mjög vel og það er ekki létt að spila fótbolta í mikið af fötum. Þetta er líka eina óupphitaða höllin á landinu og það finnst mér mjög lélegt,“ segir Jóhanna Lind.

Jóhanna vill einnig fríar rútuferðir á æfingar. „Mér finnst að krakkar undir átján ára aldri eigi að fá frítt í rúturnar til þess að fara á æfingar. Maður er ekki einu sinni kominn með bílpróf á þessum aldri og mér finnst bara mjög ósanngjarnt að þurfa að borga sjálfur til þess að koma sér í höllina ef maður býr í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði eða Stöðvarfirði.“

Sameiginlegur fundur bæjarstjórnar og ungmennaráðs FB

Frá fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnarinnar í janúarbyrjun. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.