Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer hægt af stað

Innan við 20 manns hafa kosið enn sem komið er utan kjörfundar í atkvæðagreiðslu um sameiningu Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar sem fram ver síðar í mánuðinum. Tveir hreppsstjórar voru skipaðir tímabundið til að taka á móti atkvæðum.

Kosið verður 24. mars en utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst átta vikum fyrr eða þann 24. janúar. Þær upplýsingar fengust hjá Sýslumanninum á Austurlandi í morgun að alls hefði 15 kosið hjá sýslumönnum og tveir hjá sérskipuðum hreppsstjórum.

Hægt er að kjósa utankjörfundar hjá á hvaða sýsluskrifstofu sem er í landinu og fer þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil já ef hann er hlynntur sameiningu en nei ef hann er á móti henni. Síðan þarf að koma atkvæðinu austur en kjörkassi er staðsettur á skrifstofunni á Eskifirði.

Fyrir viku voru skipaðir tveir „ad hoc“ hreppsstjórar sem þýðir að þeir eru settir í embættin tímabundið gagngert til að taka á móti utankjörfundaratkvæðum. Þau eru Grétar Geirsson á Fáskrúðsfirði og Hrefna Ingólfsdóttir á Breiðdalsvík.

Hægt er að kjósa utankjörfundar fram að kjördegi. Þá verður farið á dvalarheimili og sjúkrahús í vikunni fyrir kjördag.

Nánari upplýsingar um atkvæðagreiðsluna má finna á syslumenn.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar