Útgáfa byggingarleyfis valt á skýringum matskenndra lagaákvæða

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur verið sýknað af öllum kröfum eigenda hluta hluta húseignar á Fáskrúðsfirði um að greiða þeim lögmannskostnað sem þeir lögðu út í við að gæta hagsmuna sinna. Sveitarfélagið gaf út leyfi til að breyta þeim hluta hússins sem þeir áttu ekki og afturkallaði það svo. Dómurinn bendir á að lagaákvæði um útgáfu byggingaleyfa séu misvísandi.

Snemma árs 2014 sótti eigandi efri hæðarinnar að Búðavegi 35 um leyfi til að breyta henni úr skrifstofu- og verslunarhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Skipulags- og byggingafulltrúi benti honum á að leyfi þyrfti frá öllum eigendum hússins til að svo yrði. Eigendurnir þrír að neðri hæðinni mótmæltu bæði skriflega og munnlega og töldu þeir síðan að málið væri úr sögunni.

Vorið 2015 gaf hins vegar eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar út leyfi fyrir breytingunni. Í millitíðinni hafði komið fram álit kærunefndar húsamála í öðru máli og mat byggingafulltrúinn, að höfðu samráði við lögmann Reykjavíkurborgar og Mannvirkjastofnun, að með því væri komið fram álit um að ekki þyrfti álit allra eigenda fasteignarinnar.

Við það undu eigendur neðri hæðarinnar ekki og höfðuðu eigið mál fyrir nefndinni sem úrskurðaði þeim í hag. Eftir að það álit lá fyrir tók eignanefndin málið upp á ný og afturkallaði byggingaleyfið í ágúst 2016.

Ásakanir um stjórnsýsluklúður

Eigendur neðri hæðarinnar voru ósáttir við vinnubrögð Fjarðabyggðar og kröfu sveitarfélagið um greiðslu einna milljónar króna, ásamt dráttarvöxtum, fyrir vinnu lögmanns viðað gæta réttinda þeirra. Töldu þeir að ekki hefði verið gætt að ýmsum ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvörðun nefndarinnar væri afleiðing af framferði og gáleysi starfsmanna sveitarfélagsins sem skerti mikilsverð réttindi þeirra.

Sveitarfélagið bar fyrir sig aðildarskorti, að málið hefði verið milli eigenda húsinu og því verið skotið til kærunefndar sem það hefði enga aðild að. Krafa þess um frávísun var ekki samþykkt.

Rök Fjarðabyggðar um að þótt mistök kynnu að hafa orðið í afgreiðslu byggingaleyfisins þá væru þau ekki samnæm hlutu hins vegar meiri náð í augum héraðsdóms Austurlands.

Annmarkar á ákvörðun en ekki saknæm háttsemi

Úr úr niðurstöðu dómsins má lesa að þótt sveitarfélagið hafi sýnt að upphafleg ákvörðun væri annmörkum háð með afturköllun hennar sé skilyrðum um saknæma háttsemi starfsmanna ekki fullnægt.

Dómurinn vísar meðal annars á misvísandi ákvæði í lögum um mannvirki og fjöleignarhús og telur ljóst að afgreiðslan hafi oltið á skýringum á matskenndum lagaákvæðum. Ekki hafi verið rangt að líta til afgreiðslu annarra álita kærunefndar húsamála þar til nýtt álit lá fyrir. Þá hafi stefnendur ekki afsannað fullyrðingar starfsmanna um að skipulagsákvæði stæðu ekki í vegi fyrir útgáfu byggingaleyfisins.

Þá telur dómurinn að andmælaréttur hafi ekki verið vanvirtur þótt afstaða til þess hvort afla skyldi samþykkis allra eigenda hússins breyttist á meðan málsmeðferð stóð. Rétturinn hafi verið undirstrikaður þegar eigendum neðri hæðarinnar var birt ákvörðun um veitingu byggingaleyfisins.

Dómurinn telur því að málsástæður um að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við málsmeðferð stefnda séu lítt studdar rökum og ósannaðar. Verður þeim hafnað og Fjarðabyggð því sýknuð af öllum kröfum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.